Fundi formanna stjórnmálaflokka á Alþingi er lokið en umræðuefnið var mögulegt samkomulag um þinglok. Engin niðurstaða náðist á fundinum í kvöld og samkvæmt heimildum mbl.is strandaði málið á veiðigjöldunum.
„Það eru engar forsendur fyrir samkomulagi við stjórnarandstöðuna þegar það er ætlun ríkisstjórnarinnar að festa í lög gjald sem setur rekstrarumhverfi útgerðarinnar í uppnám,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks.
„Þetta er meiriháttar breyting á gildandi lögum. Það er óásættanlegt annað en að menn séu með langtímahugsun að baki slíkum kerfisbreytingum en ekki einhverjar skammtímavæntingar ríkisstjórnarinnar um fjáröflun verkefna í aðdraganda kosninga.“
Annar fundur í gangi
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum mbl.is funda nú þingflokksformenn ásamt Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þingforseta í kjölfar fundar formanna flokkanna. Talið er að efni fundarins snúist um þinglok.