Björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Höfn í Hornafirði er nú á hraðleið til bjargar tveimur erlendum ferðamönnum. Þeir eru búnir að festa jeppabifreið sína í Skyndidalsá á leið sinni inn í Lónsöræfi.
Er þetta þriðja útkall björgunarsveita í dag.
Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu segir að um sé að ræða mjög erfiða jökulá. Tókst ferðamönnunum að skríða út um glugga jeppabifreiðarinnar og komast upp á þak. Þaðan tókst þeim að hringja í Neyðarlínuna.
Tveir bílar frá Björgunarfélagi Hornafjarðar eru á leið á staðinn og ættu að vera hjá mönnunum eftir um hálfa klukkustund. Ferðamennirnir eru frá Belgíu.
Af þessu tilefni vill Slysavarnafélagið Landsbjörg benda á að á þessum tíma árs eru straumvötn oft í stærra lagi og þá sérstaklega að kvöldi dags. Yfir þau á enginn að fara nema hafa til þess þekkingu og reynslu. Þá eru einnig margir fjallvegir enn lokaðir.