Ísland er friðsælasta land í heimi, samkvæmt lista sem stofnunin Institute for Economics and Peace (IEP) birti í dag. Er þetta annað árið í röð sem Ísland er í efsta sæti á lista stofnunarinnar. 158 ríki eru á listanum og er Sómalía í neðsta sætinu.
Að mati IEP hefur friður aukist jafnt og þétt í heiminum frá árinu 2011. Helstu ástæðurnar fyrir því eru meiri pólitískur stöðugleiki og minni útgjöld til hernaðarmála í heiminum. Ef friður hefði verið algjör í heiminum hefðu níu billjónir dollara skilað sér aukalega í hagkerfi heimsins.
IEP tekur m.a. mið af innlendum og erlendum friði, ásamt öryggi borgara í landinu.
Mið-Austurlöndin og N-Afríka eru einu svæðin í heiminum sem koma verr út en áður, en öll önnur svæði heimsins komu betur út. Athygli vekur að löndin sunnan við Sahara-eyðimörkina eru í fyrsta skipti ekki í botnsæti listans.
Mikill ófriður hefur verið í Mið-Austurlöndum og N-Afríku seinustu ár, en þessi svæði deila þeim óæskilega titli að vera í botnsæti listans. IEP telur að þetta megi rekja til þess að mikið var um uppreisnir í þessum hluta heimsins og nefnir þá sérstaklega „arabíska vorið“ í því samhengi.
Ekki kemur á óvart að sjötta árið í röð er Vestur-Evrópa friðsælasti hluti heimsins og koma Norðurlöndin mjög vel út, en Norðmenn falla þó úr flokki tíu efstu sæta niður í 18. sæti.