„Munum leggja gildrur fyrir þá“

Kjartan Ólafsson, formaður hestamannafélagsins Sleipnis, segir að hesthúsaeigendur í samvinnu við lögregluna ætli að „leggja gildrur“ fyrir þá sem ætli sér að stela hnökkum.

„Við erum að vinna að aðgerðum í samvinnu við lögregluna og munum leggja gildrur fyrir þá sem ætla sér að stela hnökkum. Það er verið að ráðast á einkaeigur fólks og það á ekkert að líðast,“ segir Kjartan Ólafsson formaður hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi.  

Mikið hefur verið um stuld á hnökkum á undanförnu. Sérstaklega á Selfossi og bæjum þar í kring. Andvirði hnakka getur verið 200-600 þúsund krónur.

„Við höfum enga hugmynd um það hvað verður um hnakkana sem stolið er. En ég get ekki ímyndað mér að það sé erfitt að koma þeim úr landi í gámum,“ segir Kjartan.

Hesthús á Íslandi eru oft ólæst og segir Kjartan það vera vegna eldhættu.

„Hestaeigendur eru almennt með þau opin og ólæst því menn eru smeykir við eldsvoða. Það verður að vera hægt að hleypa hestunum fljótt út. Hnakkageymslurnar sjálfar eru yfirleitt læstar en menn fara með kúbein og sleggjur á þær. Í öllum tilfellum þar sem hnökkum hefur verið stolið hafa læstar geymslur verið brotnar upp“ segir Kjartan.

Nágrannagæsla

Haldinn var fundur með lögreglunni í gær. Niðurstaðan á þeim fundi var að koma upp nágrannavörslu þar sem allir þeir sem um hesthúsahverfin fara á Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri, Þorlákshöfn og Hveragerði munu skrá niður bílnúmer og lýsingu á bílum sem heimsækja hverfin. Farnar verða eftirlitsferðir á ólíklegustu tímum allan sólarhringinn.

Aðgengi til og frá hesthúsahverfum verði fækkað og settar verða upp eftirlitsmyndavélar. Allir þeir sem einhvern grun hafi um óeðlilegar ferðir, einnig þeir sem eru með reiðtygi eða annað sem kann að vekja grunsemdir, eru hvattir til að hafa samband við lögreglu eða forsvarsmenn Hestamannafélaganna. Samstarf verður haft við sveitarfélögin á viðkomandi stöðum.

Kjarton Ólafsson formaður Hestamannafélagsins Sleipnis.
Kjarton Ólafsson formaður Hestamannafélagsins Sleipnis. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert