„Ég upplifði þetta allt einu sinni í Írak, að sjá sprengjur springa og börn deyja. Ég var alltaf döpur og sérstaklega hrædd um börnin mín. Það var alltaf erfitt að heyra í sprengjum, það fylgdu því mikil læti og barnsgrátur,“ segir Lína Mazar, 32 ára gömul palestínsk flóttakona frá Írak, nú búsett á Akranesi, sem upplifði m.a. það að standa í blóðpolli í Bagdad eftir bílsprengju með eiginmanni sínum, sem síðar var drepinn.
„Það er mjög erfitt að heyra þessar fréttir frá Sýrlandi, ég vona innilega að þetta verði búið sem fyrst og fólkið í Sýrlandi fái betra líf sem allra fyrst,“ segir Lína sem hefur nú búið á Akranesi í næstum fjögur ár. Hún á nú mann og fjögur börn. Lína reyndi ásamt fyrri manni sínum og þremur börnum að flýja til Sýrlands, sem þá var mun friðsælla land og talið öruggur staður til að vera á.
Þau reyndu að flýja með fölsuð vegabréf sem komst upp við landamærin og þeim var snúið til baka. Þar sem þau voru Palestínumenn voru þau ríkisfangslaus og áttu því engin vegabréf. Tveimur vikum eftir að þau komu til Bagdad að nýju var maðurinn hennar drepinn. Nokkrir Palestínumenn komust til Sýrlands á fölsuðum vegabréfum og eru þar líklega enn í dag.
Talið er að yfir 14.000 manns hafi fallið síðan mótmæli gegn ríkisstjórn Sýrlands hófust í mars 2011, þar af mjög margir óbreyttir borgarar.
„Ég hugsa mikið til fólks og barna í Sýrlandi því ég þekki aðstæðurnar, ég vona að ástandið í Sýrlandi batni fljótt. Ég er afskaplega leið yfir þessu öllu,“ segir Lína.
Að minnsta kosti 111 manns létu lífið í átökum í Sýrlandi í gær og að minnsta kosti 40 í dag. Yfirmaður friðargæslu Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að borgarastríð væri nú í Sýrlandi þar sem ríkisstjórnin hefði misst völdin á stórum landsvæðum og stríðið stæði á milli stjórnarhers Bashars al-Assads og uppreisnarmanna.