Ísland mun standa frammi fyrir breyttu Evrópusambandi þegar kemur að því að taka afstöðu til aðildar að sambandinu. Þetta kom fram í umræðu um stöðu evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins á Alþingi í dag. Neikvæð áhrif á Ísland séu helst í gegnum fisk, ferðamenn og ál.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kallaði eftir umræðunni og hóf hana. Hann sagði þá ákvörðun að taka upp sameiginlega mynt ESB-landanna ekki einvörðungu hafa verið efnahagslega heldur einnig pólitíska. Með því hafi verið tekin sú ákvörðun að dýpka sameiningu ríkjanna.
„Síðan er það svo að sú sameining hefur ekki gengið fram og það hefur þýtt að evran hefur átt erfiðara og erfiðara uppdráttar, vegna þess að grundvöllur hennar er ekki rétt lagður,“ sagði Illugi og að meiri sameiningu þurfi til að henni reiði af, ekki sé nóg að hafa sameiginlega stjórn peningamála.
Hann sagði stöðuna sem uppi er ekki flókna. Annaðhvort auki menn og dýpki sameiningu innan ESB eða það, eða evrusamstarfið, liðast í sundur. Hættumerkin séu hvarvetna og megi helst sjá á Grikklandi, Írlandi og Spáni.
Illugi sagði ástandið í Evrópu hafa áhrif á Ísland. Hér hafi verið tekin sú ákvörðun að sækja um aðild að Evrópusambandinu árið 2009. Það sé þó ekki sama samband í dag og þegar Ísland sótti um. Bandalagið sé að breytast og þróast nær því að vera sambandsríki. Því sé ekki óeðlileg krafa að afstaða Íslands til umsóknar að ESB sé endurskoðuð, í ljósi þess sem gerst hefur og á enn eftir að gerast,.
Hann sagði þá einu lausn fyrir hendi að auka samruna. Enginn óski þess að hin sameiginlega mynt liðist í sundur enda yrði það til þess að koma af stað skelfilegri atburðarrás sem myndi valda miklum skaða.
Illugi sagðist vera á þeirri skoðun að farsælast væri fyrir Evrópusambandið að fara í meiri samruna. Það verði þó eflaust gert án aðkomu íbúa landanna og án lýðræðislegrar kosningar um það, enda sé það frekar tilhneiging íbúa að styðja þjóðríkið fremur en alríkið.
Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, var til andsvara í umræðunni. Hann sagði glímuna meðal annars við bankakerfi landanna sem séu á brauðfótum. Vissulega sé þetta áhyggjuefni fyrir Ísland enda okkar mikilvægustu útflutningslönd. Þetta sé vandi okkar burtséð frá aðildarviðræðum við ESB.
Þá sagði Steingrímur að nú væri farið að bera á fjármagnsflótta úr evrunni og yfir til Danmerkur og Sviss. Lánveitingin til Spánar sýni einnig hversu nátengdur vandi bankanna sé ríkjunum og samstarfi þeirra. Sökum þessa hefur verið kynnt viðamikil framtíðarsýn um bankabandalag.
Steingrímur sagði náist fylgst með málinu hér á landi og viðbragðshópar við störf. Hann sagði viðbúnað Íslands vera góðan, en versni staðan frekar verða áhrifin neikvæð á Ísland. Okkur standi næst áhrif á fisk, ál og ferðamenn og þar muni áhrifin fyrst koma fram.
„Annars er lærdómurinn einfaldur og hægt að setja hann fram á mannamáli. Menn geta ekki eytt meira en þeir afla, óháð mynt. Ef þú gerir það kemur það í bakið á þér og skiptir ekki máli hvort það er í dollar, evru eða krónum,“ sagði Steingrímur.
Hvað aðildarviðræður Íslands að ESB varðar sagði Steingrímur ónotanlegt að það hlakki í mönnum vegna vandans í Evrópu aðeins vegna þess að þeir eru á móti aðild að ESB. „Ísland á gríðarlega mikið undir því að það greiðist úr vanda Evrópu. Ég fæ mig ekki til að tala glaðhlakkalega um þessi vandamál þó svo ég sé andvígur aðild að Evrópusambandinu.“
Hann sagði ljóst að næstu mánuðir verði afdrifaríkir fyrir Evrópusambandið og það hvernig unnið verður úr vandræðunum muni koma til með að hafa áhrif á mat Íslands á aðild að sambandinu. Ísland muni standa frammi fyrir nýrri og breyttri mynd af Evrópusambandinu á næstu misserum. „Og við verðum að skoða okkar stöðu og samskipti í því ljósi.“
Meðal þeirra sem tóku þátt í umræðunni var Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann gerði ræðu atvinnumálaráðherra Noregs nýverið að umtalsefni sínu en sá hélt erindi um ástandið á evrusvæðinu. Sagðist ráðherrann upplifa sig á efsta þilfari Titanic og farið væri að leka inn í þau neðstu. „Við eigum ekkert erindi þarna inn, og eigum á hættu að sogast inn í kjölsög Titanic. Við eigum að afturkalla umsóknina og vinna að okkar málum á eigin forsendum. Hætta þessum blekkingarleik að hægt sé að sækja gull í greipar ESB.“
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, tók einnig þátt í umræðunni og sagðist ekki telja að eðli sambandsins muni breytast þó svo samstarf ríkjanna þéttist og á þau verði lagðar ríkari skyldur. „En það eru engar áætlanir um að breyta eðli sambandsins og það verður enginn grundvallarmunur á því,“ sagði Mörður og að breytingarnar sem verði komi til með að vera Íslandi í hag.