„Ekki hægt að búa við þetta“

Í þingholtunum er rekið gistiheimili í leyfisleysi í íbúðarhúsnæðum.
Í þingholtunum er rekið gistiheimili í leyfisleysi í íbúðarhúsnæðum. JIM Smart

„Ég er orðinn langþreyttur á ástandinu í húsinu á sumrin,“ segir Eyjólfur Karl Eyjólfsson, íbúi á Freyjugötu 26 í Reykjavík, en hann keypti íbúðina fyrir fimm árum síðan. Fyrir rúmu ári voru þrjár íbúðir í sama húsi keyptar af gistiheimili sem staðsett er í nágrenninu. Segir hann mikinn umgang og óþægindi fylgja þessu.

„Ég keypti þessa íbúð í íbúðarhúsnæði en allt í einu bý ég á gistiheimili,“ segir Eyjólfur Karl og bendir á að tvö heimili séu rekin í þessu sama húsi og að íbúar finni fyrir stöðugu ónæði vegna gestagangsins.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur ekki verið veitt leyfi fyrir rekstri gistiheimila í húsi Eyjólfs Karls en sömu íbúðir eru svo leigðar nemendum á haustin.

„Ég er eins og launalaus starfsmaður sem vaknar oft á næturnar og þarf að hringja á gistiheimilið til að láta þau skakka leikinn, því hér eru oft partý fram undir morgun og á virkum dögum. Síðan fylgir fjölskyldufólki, sem koma eða fara með næturflugi, gríðarlegur umgangur. Þau burðast með töskur upp og niður stigana og skella hurðum að nóttu til,“ segir Eyjólfur Karl.

Hann segist vita til þess að eigandi íbúðanna sé með fleiri íbúðir á sínum snærum.

„Hann er með leyfi fyrir tveim gistiheimilum sem hann rekur hér í nágrenninu þar sem brunavarnir eru í lagi en þar er hann að bóka yfirfullt og beinir fólki hér í húsið í algjöru leyfisleysi. Á Freyjugötu er ekkert eldvarnakerfi og verð ég því ekki var við ef eitthvað gerist í íbúðum gistiheimilisins,“ segir Eyjólfur Karl og bætir við að hann hafi endanlega fengið nóg eftir að hafa þurft að setja hengilás á þvottavél sína vegna stöðugrar ásóknar ferðamanna.

„Það er ekki hægt að búa við þetta lengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert