ÍSÍ ekki borist kvartanir um grófar busanir

Viðgangast harkalegar busanir í boltaíþróttum á Íslandi?
Viðgangast harkalegar busanir í boltaíþróttum á Íslandi? AFP

„Ég ætla svo sannarlega að vona að þetta viðgangist ekki,“ segir Viðar Sigurjónsson, sviðsstjóri þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, um harkalegar busanir sem Ómar Ragnarsson segir á bloggi sínu að viðgangist í boltaíþróttum. Í sumum tilfellum sé í raun um að ræða pyntingar.

Ómar segir busanirnar oft faldar í rækilegri kaghýðingu og skrifar m.a.: „Ég hef heyrt dæmi um að unglingar hafi verið svo illa farnir eftir þessa meðferð, sem fyrr á öldum var talin til ómannúðlegra refsinga, að þeir hafi hvorki getað setið né legið í marga daga á eftir. Eins og flest af þessu tagi, getur þetta farið út í öfgar, og mig grunar að svo sé í mörgum tilfellum. Tilfellin, sem ég hef heyrt af, hafa smám saman einfaldlega orðið of mörg.“

Viðar segist ekki hafa ástæðu til að ætla að busanir séu með þeim hætti sem Ómar lýsir í bloggi sínu. Í öll þau ár sem hann hafi starfað innan hreyfingarinnar hafi kvartanir um harkalegar busanir aldrei borist inn á hans borð. „Engu að síður segir það sig sjálf að miðað við það sem hann skrifar þá er ástæða til að skoða þetta strax innan okkar raða. Við höfum strax gripið til ráðstafana enda gæti annar eins alvarlegur hlutur ekki viðgengist án þess að við hefðum afskipti af honum og reyndum að sporna gegn honum.“

Viðar segir að sín fyrstu viðbrögð hafi verið að ræða við forystumenn sambandsaðilanna og kannist þeir ekki við grófar busanir. Hinsvegar sé hreyfingin stór og hann geti ekki fullyrt frekar en aðrir að busanirnar eigi sér ekki stað. 

Ómar segir einnig: „Mér finnst að minnsta kosti vera takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í því að pynta börn undir lögaldri, en verstu dæmin um þessa kaghýðingarbusun eru ekkert annað en pyntingar og ofbeldi, - og það sem verst er, - um þetta ríkir ákveðin þöggun, því enginn þorir að segja neitt af ótta við að vera settur utan garðs og lagður í einelti fyrir að kjafta frá ef barsmíðarnar fara úr böndunum.“

Viðar segist eiga bágt með að trúa að þöggun ríki um ofbeldisfullar busanir. „Það er hlutur sem ég fæst ekki til að trúa fyrr en ég tek á því. Það kæmi mér þvílíkt á óvart, ég tryði því ekki að það myndi ekki spyrjast út og menn myndu ekki ræða það með einhverjum hætti þannig að mér bærist það til eyrna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert