Kattardeilu vísað frá dómi

Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. mbl.is/Ómar

Hæstiréttur hefur vísað frá deilumáli fyrrverandi hjóna um eignarhald á ketti, en bæði segjast þau vera lögmætir eigendur kattarins. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því að kötturinn yrði tekinn úr vörslum varnaraðila og fenginn lögmanni sóknaraðilans. Sá síðarnefndi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.

Hann krafðist þess að Hæstiréttur myndi fella úrskurð héraðsdóms úr gildi og sín krafa yrði tekin til greina. Fyrir héraðsdómi krafðist hann að kötturinn yrði tekinn úr vörslu varnaraðilans, sem fór fram á að kröfunni yrði hafnað.

Þrír dómarar Hæstaréttar vísuðu málinu frá. Þeir segja að þegar málið var kært til Hæstaréttar hafi áfrýjunarfjárhæð verið 705.325 krónur. Ekkert liggi hins vegar fyrir um verðgildi kattarins og því hafi ekki verið sýnt fram á að þessu skilyrði sé fullnægt. Brestur samkvæmt því heimild til kæru í málinu og beri að vísa því sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, að sóknaraðili segist vera lögmætur eigandi kattarins sbr. skráningarskírteini en kötturinn hafi verið skráður hans eign í janúar 2011. Við samvistarslit málsaðila í nóvember 2011 hafi orðið að samkomulagi að kötturinn yrði fyrst um sinn til heimilis hjá varnaraðila en sóknaraðili kæmi reglulega til að annast um hann. Þegar sóknaraðili hafi svo ætlað að taka köttinn með sér á sitt nýja heimili hafi varnaraðili neitað að afhenda hann. Síðan hafi sóknaraðili ekki fengið að annast köttinn.

Varnaraðili byggir á að hann sé eigandi kattarins. Hann hafi fengið köttinn hjá öðrum einstaklingi þegar hann var kettlingur og hafi hann lofað honum að láta hann aldrei frá sér. Það sé rangt að hann hafi gefið sóknaraðila köttinn í jólagjöf.

Þá byggir varnaraðili á að skráning kattarins hjá DYRAAUDKENNI.IS sé yfirfærsla úr gagnagrunni frá dýralækni, þar sem skráning eigi sér stað hverju sinni sem komið sé með dýrið til skoðunar og sú skráning geti verið mismunandi eftir því hver komi með dýrið. Ekki sé um lögskráningu eignarréttar að ræða. Tilviljun hafi ráðið því að sóknaraðili hafi verið skráður eigandi kattarins en samkvæmt upplýsingum frá dýralækni komi nöfn beggja málsaðila fyrir í tölvuskráðum gagnagrunni. Það að sóknaraðili tók köttinn ekki með sér þegar hann flutti og gerði engan reka að því að sækja hann síðar, styðji fullyrðingu varnaraðila um að hann sé réttur eigandi kattarins.

Í úttekt héraðsdýralæknis frá því í febrúar kemur fram að allur aðbúnaður kattarins sé til fyrirmyndar og gefur hann varnaraðila sín bestu meðmæli fyrir umhirðu og aðbúnað hans.

Það sé réttur kattarins að fá að vera áfram hjá eiganda sínum sem búi henni svo góðar aðstæður. Það að rífa köttinn af heimili sínu þar sem honum líði vel og umhirða sé til fyrirmyndar hljóti að flokkast undir slæma meðferð dýra og vera brot á dýraverndarlögum.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ekki þyki sýnt að skráning kattarins hjá DÝRAAUDKENNI.IS veiti fullnægjandi sönnur fyrir því hver sé eigandi kattarins. Þá þyki önnur gögn málsins heldur ekki veita sönnun fyrir því hver sé eigandi hans. Liggur því ekki fyrir að sóknaraðili hafi sýnt fram á að hann sé eigandi kattarins með nægjanlega skýrum hætti í skilningi laga um aðför.

Samkvæmt var kröfu sóknaraðila um afhendingu kattarins hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka