„Við erum að sjálfsögðu ánægð með að málið skuli vera komið þetta langt og að þessi niðurstaða sé komin,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, en Alþingi samþykkti síðdegis að senda frumvarp um fjármögnun Vaðlaheiðarganga til fjárlaganefndar fyrir þriðju umræðu.
Eiríkur Björn segir þessa niðurstöðu vera ákveðið spennufall enda mikil vinna sem liggur að baki. „Nú skiptir öllu máli að samstaða náist í samfélaginu að fara í þessa framkvæmd,“ segir Eiríkur Björn og bætir við að ekki sé eftir neinu að bíða lengur.
Segir hann mikilvægt að hefja framkvæmdir sem allra fyrst enda skipta göngin miklu máli fyrir íbúa á svæðinu. Brýnt er að allir aðilar taki höndum saman og framkvæmdin verði að veruleika.
„Það skiptir okkur öllu máli, nú þegar búið er að taka ákvörðun, að menn sameinist um að láta þetta ganga. Við munum a.m.k. leggja okkar fram til þess.“