„Okkur var sagt að við þyrftum að bíða í nokkrar klukkustundir, núna eru liðnir tveir dagar,“ segir Vincent Hurteau sem átti bókað flug með vél Icelandair frá Washington til Íslands á mánudagskvöldið. Vegna bilunar varð að lenda í Boston þar sem hluti farþeganna er enn að bíða eftir að komast til landsins.
Hann segir að meðal þeirra sem bíði nú í Boston sé kona með þrjú lítil börn auk 8-10 eldri borgara sem séu að missa af skemmtisiglingu. Sjálfur hafi hann átt að hitta fólk í Reykjavík. Hann gagnrýnir lélegt upplýsingaflæði til farþeganna, þeir hafi verið sendir á hótel og sagt að koma morguninn eftir. Fluginu hafi verið frestað fram eftir degi og loks hafi verið sagt að vélin færi á miðnætti. Seint um kvöldið var flugið hvergi að finna á upplýsingaskjám og þegar farþegar leituðu sér upplýsinga var þeim sagt að flugið hafi verið fellt niður.
Þeim var enn og aftur komið fyrir á hóteli, sem Hurteau segir að hafi verið langt fyrir utan Boston, og sagt að flugvélin færi í loftið kl. 10 morguninn eftir en í morgun var þeim sagt að fluginu hefði verið frestað þar til síðar í dag. „Icelandair hefur ekki verið hjálpsamt, þetta hefur mikil áhrif á fríið hjá mörgum,“ segir Hurteau að lokum.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að í gær hafi verið búist við varahlut í flugvélina frá London en hann hafi síðan ekki skilað sér. Reynt var að koma eins mörgum farþegum og hægt var á leiðarenda með öðrum flugfélögum. „Það tókst að bjarga málunum fyrir um 120 farþega en 38 urðu að gista aðra nótt í Boston og komast loksins til Íslands núna á eftir.“
Hann segir alveg ljóst að svona löng töf valdi verulegum óþægindum hjá fólki. „Það verður að sjálfsögðu komið til móts við það í samræmi við gildandi reglur um farþegaréttindi, það verður reynt að gera eins gott úr þessu og hægt er en töfin er orðin, því miður.“