Samningur Huangs Nubo um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum er enn ófrágenginn. Kínverski fjárfestirinn sagði í samtali við kínverska fréttamiðilinn China Daily fyrr á árinu að hann myndi skrifa undir samninginn um miðjan júní.
Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings segir málið á góðri siglingu „samningsgerðinni miðar ágætlega, þetta er í lögfræðifasa í augnablikinu.“ Hann segir að samningurinn sé langt á veg kominn.
Bergur segist ekki halda að samningurinn muni liggja fyrir í júnímánuði. „Stefnt er að því að þetta verði afgreitt í júlí ef allt gengur að óskum.“
Að sögn Bergs mun skipulagsvinna og hönnun hótelsins taka allt að einu og hálfu ári eftir að samningsgerð lýkur. Framkvæmdir hefjast því að öllum líkindum ekki fyrr í byrjun árs 2014.
Bergur hefur heimsótt eitt af hótelunum í eigu Huangs og segir fjárfestinn stefna að því að hótelið sem mun rísa á Grímsstöðum verði svipað, en um er að ræða lúxushótel með góðri aðstöðu fyrir gesti.
Halldór Jóhannsson, talsmaður Huangs á Íslandi, vill ekki spá fyrir um hvenær samningurinn muni liggja fyrir. „Það var aldrei búið að setja dagsetningu á þetta, miður júní var einungis viðmið og þetta er ennþá í vinnslu,“ segir Halldór.
Að hans sögn er samningsgerðin tímafrek. „Þetta er flókið mál enda mörg sveitarfélög sem koma að því.“
Ekki er ljóst hvenær samningurinn mun liggja fyrir samkvæmt upplýsingum frá Halldóri. „Ég á von á að það fari að draga til tíðinda fljótlega, en get ekki sagt til um nákvæma tímasetningu.“Hann sagði enn fremur að ekki sé enn búið að semja um lánstímann.