Tókust á um sumarþing

Frá Alþingi. Mynd úr safni.
Frá Alþingi. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Þing­menn tók­ust á um þinglok í umræðum um störf þings­ins í dag. Stjórn­arþing­menn segja að sum­arþing sé al­farið í boði stjórn­ar­and­stöðunn­ar. „Ef að þetta sum­arþing er í boði stjórn­ar­and­stöðunn­ar þá ætla ég nú að taka mér það bessa­leyfi og afboða þetta sum­arþing í hvelli,“ sagði Ragn­heiður E. Árna­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, seg­ir að sam­komu­lag um að ljúka þing­störf­um hafi kom­ist í upp­nám þegar Jó­hanna Sig­urðardótt­ir for­sæt­is­ráðherra  hafi snúið aft­ur til lands­ins í gær, en hún tók þátt í tveggja dag fundi for­sæt­is­ráðherra Norður­land­anna.

„Allt er komið á byrj­un­ar­reit á nýj­an leik. Það er svo, frú for­seti, að verk­stjór­inn yfir þess­ari rík­is­stjórn, hæst­virt­ur for­sæt­is­ráðherra, virðist ekki geta tekið friðinn þegar ófriður er í boði,“ sagði Ásmund­ur.

Mörður Árna­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, seg­ir koma til greina að fara eft­ir 64. gr. laga um þingsköp Alþing­is. Þar seg­ir að ef umræður drag­ist úr hófi fram get­ur for­seti úr­sk­urðað að ræðutími hvers þing­manns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tíma­lengd.

Þar seg­ir enn­frem­ur að for­seti geti stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig geti for­seti lagt til, hvort held­ur í byrj­un umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Þá kem­ur fram að níu þing­menn geti kraf­ist þess að greidd séu at­kvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þing­manns tak­markaður.

„Virðum kjarn­ann í hinum lýðræðis­legu leik­regl­um sem við störf­um hér eft­ir,“ sagði Mörður.

Ein­ar K. Guðfinns­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ir að Mörður hafi sýnt á spil­in sín. „Hann er að segja okk­ur frá því að nú hafi menn þau áform uppi, að ein­hver­tím­ann þegar að rík­is­stjórn­ar­liðið er farið að þreyt­ast, og það er nú orðið dá­lítið þreytt eins og við höf­um tekið eft­ir, þá ætli 9 þing­menn að koma hér fram með til­lögu um það að ljúka umræðunni og setja á at­kvæðagreiðslu. Þetta hygg ég að sé nú eins­dæmi í þing­sög­unni en nú vit­um við það,“ sagði Ein­ar.

Þá bætti hann við að þing­menn séu enn að tak­ast um sjáv­ar­út­vegs­frum­vörp­in á Alþingi, því mál­in séu al­gjör­lega óút­kljáð.

„Sum­arþing er í boði stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Höf­um það al­veg á hreinu,“ seg­ir Magnús Orri Scr­hram, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Hann bætti við að minni­hluti Alþing­is vilji koma í veg fyr­ir það að arður­inn af fisk­veiðiauðlind­inni renni til allra en ekki sumra.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, seg­ir eðli­legt að stjórn­ar­andstaðan vilji fá að ræða stór mál sem komi bæði seint inn og séu al­gjör­lega ófull­b­urða. „Það eru þjóðar­hags­mun­ir, það eru allra hags­mun­ir að menn berj­ist gegn frum­vörp­um sem gera m.a. út af við lít­il og meðal­stór út­gerðarfyr­ir­tæki og önn­ur fyr­ir­tæki sem tengj­ast sjáv­ar­út­veg­in­um,“ sagði hún.

Ólína Þor­varðardótt­ir, þing­kona Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, seg­ir minni­hluta þings­ins halda meiri­hlut­an­um í gísl­ingu. „Auðvitað er það al­veg ljóst að þetta sum­arþing sem haldið verður hér það er ekki í boði rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Það er svika­laust í boði stjórn­ar­and­stöðunn­ar,“ sagði Ólína.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert