„Mér þætti afleitt ef samgönguáætlun til skamms og langs tíma fengist ekki samþykkt hið bráðasta. Það er mjög mikilvægt að þessar áætlarnir klárist fyrir sumarið því að þar er að finna samþykktir sem varða framkvæmdir sem á að ráðast í á næstu misserum, og heimildir Alþingis þurfa að liggja fyrir,“ segir Ögmundur Jónasson, ráðherra samgöngumála.
Í því sambandi nefnir hann Norðfjarðagöng sem samkvæmt tillögum í samgönguáætlun eigi að flýta og hefja framkvæmdir við á næsta ári. Framkvæmdir á næsta ári kalli á undirbúning á þessu ári og „því fyrr því betra“.
Ögmundur segir að það skjóti skökku við ef eina framkvæmdin sem ekki er í samgönguáætlun, Vaðlaheiðargöng, fær náð fyrir þinginu en „annað látið reka á reiðanum“.
Þetta sé forgangsröð sem hann hafi verið afar ósáttur við og hefði talið eðlilegt að forgangsröðun hefði verið á hinn veginn.