Jóhanna: Ástæðulaust að hafa áhyggjur fyrirfram

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er engin bráðahætta fyrir Ísland enda er landið vel varið með sterkan gjaldeyrisforða og við erum líka með gjaldeyrishöft. En það er auðvitað ljóst að frekari hremmingar í Evrópu munu hafa áhrif hér,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Illuga Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, en þar spurði hann um aðgerðir stjórnvalda til þess að bregðast við vaxandi efnahagserfiðleikum á evrusvæðinu.

Jóhanna sagði óþarfa að hafa fyrirfram áhyggjur af stöðunni. Viðbragðsáætlun væri til staðar í þessum efnum eins og öðrum og málið hefði verið rætt innan stjórnkerfisins. Hún sagði að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hittust reglulega og væru mjög á vakt yfir öllu sem gæti gerst og falið í sér hættu fyrir íslenskt fjármálakerfi.

„En við hljótum öll að binda vonir við það að þessu linni en sú aðgerð sem farið var í Spáni, hún virðist ekki hafa dugað mjög vel nema í fyrstu. Og ég tek undir það að það sé ekkert sérstaklega hægt að kalla þetta sigur evrunnar,“ sagði Jóhanna en Illugi hafði spurt hana út í þau ummæli forsætisráðherra Spánar að lánveiting Evrópusambandsins til landsins til þess að bjarga þarlendum bönkum væri sigur evrunnar.

Ekki ástæða til að endurskoða umsóknina

Illugi spurði forsætisráðherra að því hvort hún teldi ekki að ástandið innan Evrópusambandsins kallaði á endurskoðun á umsókn stjórnvalda um inngöngu í sambandið en Jóhanna sagðist ekki sjá ástæðu til þess. Þeir sem vildu ganga í Evrópusambandið hlytu að vonast til þess að um tímabundið vandamál væri að ræða innan sambandsins sem gengi yfir á einhverjum tíma.

„Hér er ekki um að ræða tímabundinn vanda. Hér er um að ræða vanda sem magnast og mun magnast enn frekar ef ekki er gripið til aðgerða og þær aðgerðir eru að breyta ESB yfir í sambandsríki,“ sagði Illugi í andsvari og sagði ljóst að ef bjarga ætti evrunni yrði að breyta sambandinu með þeim hætti. Spurði hann hvort slík þróun væri ekki tilefni til þess að skoða hvort ástæða væri til þess að halda umsókninni áfram.

Jóhanna svaraði á þá leið að hún teldi að Íslendingar þyrftu að hafa meiri áhyggjur af því ef þeir þyrftu að búa áfram við krónuna og ekki næðist samstaða á milli stjórnmálaflokkanna um framtíðarfyrirkomulagið í þeim efnum.

„Ég held að við höfum alveg tímann fyrir okkur varðandi Evrópusambandið og að skoða hvaða þróun verður þar og hvort Evrópusambandið sé að breytast eins og háttvirtur þingmaður nefndi. Við tökum það auðvitað allt inn í myndina þegar við metum hagsmuni Íslands í þessu máli og þegar samningar eru í höfn og þá tökum við auðvitað með í reikninginn hvaða breytingar hafa orðið eða eru þá í augsýn að því er varðar Evrópusambandið. En það er engin ástæða til þess fyrirfram að hafa áhyggjur af þessu máli,“ sagði Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert