Fasteignamat hækkar um 7,4% á næsta ári

Staðsetning fasteigna er meðal þess sem hefur áhrif á fasteignamatið.
Staðsetning fasteigna er meðal þess sem hefur áhrif á fasteignamatið. mbl.is/Rax

Fasteignamat hækkar um 7,4% á næsta ári miðað við árið í ár. Heildarmat fasteigna á landinu öllu er nú 4.715 milljarðar króna samkvæmt nýju fasteignamati sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.  Við matið var miðað við verðlag fasteigna í febrúar 2012 og byggir það á þinglýstum kaupsamningum. Margt bendir til þess að fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér en þinglýstum kaupsamningum hefur fjölgað síðustu misseri.

Fasteignamatinu er ætlað að endurspegla markaðsvirði  fasteigna og er notað sem grundvöllur við ákvörðun skatta.

Samkvæmt fasteignamatinu 2013 hækka 125 þúsund íbúðaeignir á öllu landinu um 8,3% milli ára en samanlagt fasteignamat er 3.105 milljarðar króna. Þá hækkar fasteignamatið á 90,3% eigna en matið á 9,7% eigna lækkar frá fyrra ári.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í fjölbýli meira en mat íbúða í sérbýli. Utan höfuðborgarsvæðisins er þessu hins vegar öfugt farið þar sem fasteignamat á sérbýli hækkar meira en á fjölbýli. Þá hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á landinu öllu um 5,4% frá síðasta ári og er sú breyting svipuð á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Sú tegund fasteigna sem mest hefur hækkað að jafnaði eru frístundahúsnæði þ.e. sumarbústaðir og þess háttar.

Fasteignaviðskipti hafa aukist

Margt bendir til þess að skriður sé kominn á fasteignaviðskipti eftir mikinn samdrátt frá árinu 2008. Þannig hefur samningum um fasteignakaup fjölgað síðustu misseri en árið 2011 var 6.598 fasteignakaupasamningum þinglýst. Það eru 360 fleiri samningar en gengið var frá árið 2008 samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá. Kaupsamningum hefur fjölgað mest á höfuðborgarsvæðinu en minnsta fjölgunin er á Suðurnesjum.

Bættar samgöngur hafa áhrif

Fasteignamatið er unnið af Þjóðskrá Íslands í nánu samstarfi við sveitarfélögin enda er markmið vinnunnar að gæta jafnræðis við ákvörðun skatta á fasteignir sem er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga að sögn Gunnlaugs Júlíussonar, sviðsstjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fasteignaskatturinn taki mið af fasteignamati hvers árs á hverjum stað fyrir sig. Gunnlaugur segir fasteignamatið geta gefið ákveðna mynd af lífsgæðum í tilteknum sveitarfélögum. Þannig hafi fasteignamat hækkað áberandi í sveitarfélögum þar sem samgöngur bötnuðu frá fyrri árum. Sem dæmi megi nefna að fasteignamat í Bolungarvík hafi hækkað um rúm 16% og í Vestmannaeyjum um tæp 20% sem skýrist að mestu leyti á samgöngubótum.

Upplýsingar á rafrænu formi

Tilkynningarseðla vegna fasteignamats má nú fyrst og fremst nálgast rafrænt á heimasíðunni Ísland.is. Nýtt fasteignamat 2012 fyrir einstakar eignir má hins vegar nálgast á heimasíðu Þjóðskrár. Margrét Hauksdóttir, aðstoðarforstjóri Þjóðskrár, segir að með þessu sé verið að auðvelda aðgengi að upplýsingunum en áfram verði þó hægt að fá tilkynningarseðlana í pósti sé þess sérstaklega óskað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert