Hafa beðið í sex klukkustundir

Faþegar vélar Icelandair sem fara átti frá Bandaríkjunum til íslands …
Faþegar vélar Icelandair sem fara átti frá Bandaríkjunum til íslands í gærkvöldi hafa verið strandaglópar í 6 klukkustundir. mbl.is

Flug sem fara átti frá Denver í Colorado í Bandaríkjunum til Íslands um miðnætti í gær féll niður. Farþegar vélarinnar eru nú fastir á flugvelli Coloradoborgar og fá að sögn Þórs Kristjánssonar farþega engar upplýsingar um ástæður þess að fluginu var aflýst.

„Við biðum í rúmar þrjár klukkustundir um borð, í 35 gráða hita, þangað til við vorum beðin að yfirgefa vélina. Engar skýringar voru gefnar á þessu og ekkert okkar hefur hugmynd um hvort um bilun var að ræða eða annað.“

Að sögn Þórs kom önnur flugvél um það bil klukkutíma seinna, en sú vél hafi verið í slæmu ásigkomulagi og aldrei farið af stað. „Þetta var einhver illa farin og lítil rella, sem flaug að lokum ekki. Við fengum heldur engar skýringar í það skiptið,“ segir Þór.

„Hluta farþega voru útvegaðar inneignir á hótelum, en það voru ekki næstum allir,“ sagði Þór sem er argur út í þjónustu Icelandair. „Ég er hér með fjórum öðrum í hóp, þar af er einn í hjólastól og tveir sykursjúkir, og það er fyrir neðan allar hellur að engar upplýsingar sé hægt að fá og manni sé boðið upp á þetta,“ segir Þór en samtals hafa farþegarnir nú beðið á flugvellinum í rúmar sex klukkustundir. 

„Ég hef reynt öll möguleg númer hjá Flugleiðum, en það svarar hvergi. Það er engar upplýsingar að fá,“ segir Þór.

Uppfært kl. 07:27 Samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á vef Icelandair rétt í þessu stafar sólarhringsseinkunin á flugi frá Denver af vélarbilun. Ekki náðist í starfsmenn fyrirtækisins vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka