Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, furðar sig á því á Facebook-síðu sinni í dag hvers vegna þurfi að hækka stýrivexti hér á landi þegar krónan sé í ströngum gjaldeyrishöftum en Seðlabanki Íslands ákvað í vikunni að hækka stýrivexti um 0,25%.
Hann bendir á að ekki þurfi þar af leiðandi að hækka stýrivexti til þess að eigendur fjármuna hér á landi sjái sér hag í því að hafa þá hér áfram vegna vaxtamunar.
„Hvers vegna þarf Seðlabankinn að hækka vexti með krónuna í ströngum gjaldeyrishöftum? Hvert geta fjármunirnir farið? Allt er yfirfljótandi í krónum í erlendri eigu sem vilja fara sem evrur til útlanda. Þetta hækkar bara gjaldeyriskaup,“ segir Pétur og spyr síðan að endingu: „Hvers lags peningastjórnun er þetta?“