Nýr vefmiðill í loftið

Ólafur Arnarson.
Ólafur Arnarson.

Hagfræðingurinn og pistlahöfundurinn Ólafur Arnarson hleypti vefmiðlinum Tímarím af stokkunum í gær. Ólafur hyggst skrifa á gagnrýninn hátt um íslenskt samfélag, sér í lagi valdhafa.

Ólafur hefur verið pistlahöfundur á Pressunni um nokkurra ára skeið og segir Tímarím visst framhald af þeim skrifum. „En mér hefur fundist pistlaformið takmarka mig svolítið og hef að undanförnu verið að móta með mér hugmyndir um að stofna eigin vefmiðil.“

Að sögn Ólafs er markmiðið ekki að keppa við stærstu fréttamiðlana, heldur mun Tímarím marka sér sérstöðu með gagnrýnni umfjöllun með nokkuð öðrum hætti en hingað til hefur þekkst. „Miðillinn á ekki að vera hlutlaus, hann mótast af mínum skoðunum og fréttavalið mun mótast af því hvar mitt áhugasvið liggur.“

Í Pressupistlum sínum fjallaði Ólafur einkum um stjórnmál, hagfræði og hrunið og hann segist hafa reynt að horfa öðruvísi á þessi mál en sumir aðrir. „Mér finnst að við getum vel lært af hruninu án þess að vera endalaust í baksýnisspeglinum.“

Ólafur stendur einn að baki Tímaríms og er eini fasti penni miðilsins eins og er, en segir að líklega muni aðrir slást í hópinn og fólk hafi verið í sambandi við hann og viljað koma að skrifum á Tímarími.

„Ég verð með gestapenna. En þarna er margt annað en fréttir; menning, matur og vín og pistlar.“

Nafnið Tímarím tengist ekki að neinu leyti dagblaðinu Tímanum, sem gefið var út á vegum Framsóknarflokksins á árum áður.  „Þetta er tilvísun í það sem kallað var Tímarímur, sem var kveðskapur fyrr á öldum og einkenni þeirra var að þær voru samtímaádeila, ádeila á spillta valdhafa. Það vil ég að verði meginhlutverk Tímaríms,“ segir Ólafur.

Vefmiðillinn Tímarím
Vefmiðillinn Tímarím www.timarim.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert