„Íbúðalánasjóður er ekki félagslegur,“ sagði Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag enda væri stofnunin að veita öllum lán óháð efnahags. Hann sagðist þó vera hlynntur því að Íbúðalánasjóður væri gerður að félagslegri stofnun.
Umræður hafa staðið yfir í dag um húsnæðismál og stöðu Íbúðalánasjóðs og hefur meðal annars verið rætt um það með hvaða hætti yrði haldið á málum stofnunarinnar ef Sjálfstæðisflokkurinn kæmist í ríkisstjórn og færi með þau mál.
Meðal þeirra sem hafa velt fyrir sér örlögum Íbúðalánasjóðs í höndum sjálfstæðismanna eru Ásmundur Einar Daðason og Birkir Jón Jónsson, þingmenn Framsóknarflokksins. Vitnaði Ásmundur í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, frá því í umræðum um málið á Alþingi í gær að það sjónarmið að einkavæða bæri Íbúðarlánasjóð væri í minnihluta innan flokksins.
Þá lagði Ásmundur ennfremur áherslu á mikilvægi Íbúðalánasjóðs sem félagslegrar stofnunar og að rekstur hans yrði tryggður til framtíðar.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði óþarfa að hafa áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs þó sjálfstæðismenn kæmust í ríkisstjórn. Hann minnti meðal annars á að núgildandi lög um stofnunina hefðu verið sett í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins.
Einar lagði hins vegar áherslu á að tryggja yrði að Íbúðalánasjóður gæti boðið viðskiptavinum sínum upp á sambærileg kjör og bankarnir og þá ekki síst Landsbankinn. Fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu á sömu nótum.