„Nú förum við í það að dusta rykið af samningum og gögnum sem þurfti að leggja til hliðar. Við förum á fulla ferð að vinna í því og undirbúa að koma málinu í gang aftur,“ segir Pétur Þór Jónasson, stjórnarformaður Greiðrar leiðar og fulltrúi félagsins í stjórn Vaðlaheiðarganga hf.
Frumvarp um fjármögnun ganganna var samþykkt með öruggum meirihluta eftir aðra umræðu á Alþingi í gær og var það afgreitt úr fjárlaganefnd í gærkvöldi. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að búist sé við að málið verði á dagskrá þingsins í dag og miðað við stuðninginn við málið í gær er hugsanlegt að frumvarpið verði samþykkt í dag.
Frestur sem samið var um við verktaka sem skiluðu tilboðum í verkið rennur út á miðnætti en Pétur segir að viðræður hafi verið í gangi um aukafrest ef málið sé í þann veginn að fara í gegn. Nú þurfi að ganga frá samningum við þá sem áttu lægstu tilboðin enda var því ekki lokið þegar málinu var slegið á frest. Íslenskir aðalverktakar áttu lægsta tilboðið í verkið.