„Nú eru hlutverkaskiptin orðin slík hér á Alþingi, frú forseti, að fyrir nokkrum dögum bauð minnihlutinn meirihlutanum að velja kannski eins og fimm mál sem mætti afgreiða. Þetta hef ég aldrei áður upplifað í tæplega þrjátíu ára þingsögu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ræðustól Alþingis í morgun þar sem hann fór hörðum orðum um framgöngu stjórnarandstöðunnar. Til þessa hefði verið haldið öðruvísi á málum. Meirihlutinn hefði gert minnihlutanum slíkt tilboð en ekki öfugt.
„Það er svo komið að minnihlutinn leggur þann skilning í lýðræðis- og þingræðisleikreglur hér að hann eigi ekki bara að ráða því hvaða mál Alþingi, meirihlutinn geti afgreitt heldur líka innihaldi þeirra mála, þeirra fáu mála, sem minnihlutanum þóknast að leyfa afgreiðslu á,“ sagði Steingrímur og tók frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld í sjávarútvegi sem dæmi. Minnihlutinn hefði komið því skýrt á framfæri að ef frumvarpið yfir höfuð yrði samþykkt þá skyldi minnihlutinn ráða upphæð veiðigjaldanna.
Steingrímur sagðist telja fjölda þeirra mála sem lægju fyrir þinginu tiltölulega eðlilegan án þess að hann væri að segja að það „mætti ekki skipuleggja eða dreifa þeirri vinnu betur.“ Nú hefði hins vegar farið óhemjutími í að ræða um þrjú þingmál og engin leið verið til þess að ná samkomulagi um þinglok. Stjórnarliðar hefðu þó lagt mikið á sig í þeim efnum. „Við höfum jafnvel gengið inn í viðræður um að leggja til hliðar tvö af þremur stærstu málum meirihlutans á þessu vorþingi ef það mætti verða til þess að annað yrði klárað. Allt hefur komið fyrir ekki.“ Lauk hann síðan máli sínu á orðunum: „Alþingi er í miklum vanda.“
Stjórnarandstaðan komið með tvö tilboð
Miklar umræður sköpuðust um það á meðal þingmanna hvers vegna Alþingi hefði ekki lokið störfum sínum og hverjum það væri að kenna, stjórnarliðum eða stjórnarandstöðunni. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði stjórnarliðum ekki annt um sannleikann í þeim efnum. Hann upplýsti að stjórnarandstaðan hefði komið fram með tvö tilboð síðustu daga. Annað gengi út á að þinginu yrði frestað fram í ágúst og tíminn fram að því notaður til að fara betur yfir frumvörp ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum og gera nauðsynlegar athuganir í þeim efnum. Hitt sneri að því að veiðigjöld væru ákveðin 11 milljarðar sem væri sú tala sem kveðið væri á um í frumvarpinu um þau.
Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sakaði stjórnarandstöðuna um að tefja fyrir ýmsum málum sem skiptu marga máli og var svarað af Ragnheiði Elínu Árnadóttir, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, að það væri alls ekki rétt með farið. Dagskrá þingsins væri raðað þannig upp að ýmis mál sem stjórnarandstaðan væri alls ekki andsnúin væru sett á eftir stórum og umdeildum málum. Þá sagði Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, ljóst að stjórnarandstaðan hefði tekið þingið í gíslingu.
Ekkert samkomulag hefur enn náðst um það hvenær þinglok verða en um hálfur mánuður er síðan þau áttu að verða samkvæmt áætlun. Formenn og þingflokksformenn stjórnmálaflokkanna hafa fundað undanfarna daga þar sem reynt hefur verið að ná samkomulagi í þeim efnum en sú vinna hefur ekki skilað árangri.