Hampfræ ekki flokkuð sem fíkniefni

Hampfræ.
Hampfræ. Ljósmynd/getnatured.com

Í apríl sl. beindu Samtök verslunar og þjónustu kæru til velferðarráðuneytis vegna synjunar Lyfjastofnunar á undanþágu til að markaðssetja hér á landi lífrænt ræktuð hampfræ og hamppróteinduft. Hefur stofnunin nú tekið þá ákvörðun til endurskoðunar og fallist á að umræddar vörur flokkist ekki sem ávana- og fíkniefni.

Höfnun Lyfjastofnunar grundvallaðist á því að umræddar vörur væru afurðir kannabisplöntunnar og meðhöndlun þeirra því óheimil.

Í framhaldi af synjun Lyfjastofnunar var send kæra til velferðarráðuneytis en í henni var með ítarlegum hætti sýnt fram á að umræddar vörur gætu ekki flokkast sem ávana- og fíkniefni.

Á grundvelli þeirra athugasemda, gagna og ábendinga sem fram komu í kærunni hefur Lyfjastofnun fallist á að endurskoða fyrri ákvörðun.

Í tilkynningu frá Samtökum verslunar og þjónustu kemur fram að nú liggur fyrir að innflutningur á hampfræjum og hamppróteindufti gangi ekki gegn löggjöf um ávana- og fíkniefni. Samtökin fagna þessari niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert