Lögregla gómaði mörðinn í morgun

Gæludýrið var af marðarætt.
Gæludýrið var af marðarætt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók í morgun marðardýr af fólki sem kom með það til landsins nýverið. Héraðsdýralæknir austurumdæmis staðfesti í samtali við mbl.is að búið væri að lóga því. Maðurinn sem kom með mörðinn á yfir höfði sér kæru vegna athæfisins.

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að merðinum hafi verið smyglað hingað með Norrænu fyrr í mánuðinum og að ekki hafi verið vitað hvar dýrið væri niðurkomið. Hjörtur Magnason, héraðsdýralæknir austurumdæmis, segir að lögregla hafi fullvissað sig um að dýrið væri á heimili fólksins og svo gripið til aðgerða.

Um var að ræða útlenskan karlmann sem búsettur er á höfuðborgarsvæðinu. Hann var stöðvaður við tollskoðun, en sökum þess að um gæludýr barna hans var að ræða var honum gefinn kostur á að fara með það aftur úr landi. Maðurinn tók því tilboði og sagðist ætla að fara aftur utan með ferjunni. Tollverðir fylgdu manni og merði aftur um borð, en skömmu síðar sást hann stökkva í land og var hann þá með mörðinn með sér.

Hjörtur segir að lögum samkvæmt eigi að lóga dýrum sem hingað koma samstundis en þarna hafi menn ætlað að gera manninum greiða sökum þess að málið var viðkvæmt. Hann segir manninn hafa gróflega brotið það traust sem honum var sýnt og útiokar ekki að reglur verði hertar í kjölfarið. Hjörtur segir þó að málið hafi fengið farsælan endi, þar sem merðinum hafi verið lógað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert