Stjórnarmaður í Sambandi ungra sjálfsstæðismanna, segist ósammála ályktun sem stjórn félagsins sendi út í dag og segist hafa greitt atkvæði gegn henni. Í ályktuninni eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi gagnrýndir harðlega fyrir að samþykkja fjármögnun Vaðlaheiðarganga á Alþingi í gær.
„Ég er ósammála þessari ályktun og greiddi atkvæði gegn henni,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, stjórnarmaður í SUS fyrir Norðausturkjördæmi og formaður Kjördæmisráðs ungra sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi.
Bergur Þorri segir enga vegaframkvæmd á Íslandi hafa verið hreina einkaframkvæmd og vísar í skýrslu Ríkisendurskoðunar, Hvalfjarðargöngin og Sundabraut - mat á kostum og göllum einkaframkvæmdar. Þar segir m.a. að gerð og rekstur Hvalfjarðarganga geti varla talist hrein einkaframkvæmd í hefðbundnum skilningi þess orðs enda hafi opinberir aðilar staðið að baki hlutafélaginu Speli.
„Það er ósanngjarnt að segja að framkvæmd sem skapar fjölda starfa hjá fólki sem býr víða um land sé til þess að kaupa atkvæði í einu kjördæmi,“ segir Bergur Þorri.
Í ályktun stjórnar SUS, sem send var mbl.is í morgun, segir m.a.:
„Ungir sjálfstæðismenn óska þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Kristjáni Þór Júlíussyni og Tryggva Þór Herbertssyni, og öðrum þingmönnum kjördæmisins, til hamingju með að hafa keypt sér endurkjör á næsta kjörtímabili. Verðið, 8,7 milljarðar króna, greiða þeir reyndar ekki sjálfir heldur rennur það úr vasa skattgreiðenda til gerðar Vaðlaheiðarganga.“