Ungir sjálfstæðismenn óska þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, Kristjáni Þór Júlíussyni og Tryggva Þór Herbertssyni, og öðrum þingmönnum kjördæmisins, til hamingju með að hafa keypt sér endurkjör á næsta kjörtímabili. Verðið, 8,7 milljarðar króna, greiða þeir reyndar ekki sjálfir heldur rennur það úr vasa skattgreiðenda til gerðar Vaðlaheiðarganga.
„Það er blekkingarleikur að halda því fram að um einkaframkvæmd sé að ræða. Ef svo væri þyrfti Alþingi enga aðkomu að hafa að málinu. Staðreyndin er hinsvegar sú að fyrirtækið sem mun gera og reka göngin er í meirihlutaeigu ríkisins auk þess sem Alþingi hefur nú ákveðið að lána 8,7 milljarða úr vasa skattgreiðenda til verkefnisins. Öll áhætta af verkefninu liggur því hjá skattgreiðendum,“ segir í ályktun SUS.
„Ungir sjálfstæðismenn vilja að sem flestar samgöngubætur verði einkaframkvæmdir, þar sem einkaaðilar myndu sjá alfarið um fjármögnun, byggingu og rekstur samgöngumannvirkja. Mikilvægt er að því fé sem ríkið ver til vegamála sé ráðstafað með málefnalegum og eðlilegum hætti í samræmi við samþykktar vegaáætlanir, en að sérstök gæluverkefni séu ekki tekin fram fyrir röð, eins og gert hefur verið með Vaðlaheiðargöng.
Á sama tíma og ungir sjálfstæðismenn átelja Kristján Þór Júlíusson og Tryggva Þór Herbertsson fyrir að styðja þetta mál þá fagna þeir því að aðrir þingmenn flokksins hafi ekki greitt atkvæði með því við lokaafgreiðslu málsins,“ segir í ályktuninni.