Nokkuð er um að einstaklingar taki á sig sök í málum sem varða ræktun fíkniefna hér á landi. Um er að ræða einstaklinga með fíkniefnaskuldir á bakinu en þeim er oft gert að taka á sig sökina gegn því að losna undan skuld. Þessir einstaklingar hafa sumir hverjir ekkert komið að ræktuninni sjálfri og eru jafnvel undir lögaldri.
Fíkniefnaframleiðsla á Íslandi hefur færst í aukana eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið. Einkum er um að ræða ræktun kannabisplantna. Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir framleiðendur nú einbeita sér að ræktun á smærri skala sem jafnvel sé dreift á nokkra staði.
„Ræktunin er að færast í venjuleg íbúðarhverfi þar sem framleiðendur rækta kannabisplöntur í íbúðum sem oft hafa verið keyptar eða leigðar aðeins í þeim tilgangi að framleiða efnin en stundum er húsnæði þó notað án leyfis,“ segir Karl Steinar. Þetta sé breyting frá fyrri árum þegar nokkuð var um að framleiðendur stæðu fyrir umfangsmiklum ræktunum með fleiri en 500 plöntum á sama stað. „Nú eru menn jafnvel að dreifa þessu á tvo til þrjá staði með 100-200 plöntum á hverjum stað sem oft eru venjulegar íbúðir.“
Samkvæmt samantekt frá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur handtökum ungmenna á aldrinum 17-20 ára farið fjölgandi í málum er varða fíkniefnaframleiðslu.
Karl Steinar segir oft margt benda til aðkomu eldri og reyndari einstaklinga. „Í sumum tilvikum finnst okkur eins og einhverjir aðrir, sem kunna vel til verka, hafi sagt þeim yngri til. Þekkingin er það mikil,“ segir Karl Steinar. Þá sé einnig ólíklegt að fólk undir tvítugu hafi tök á því að útvega sér húsnæði til þessarar iðju án aðkomu eldri einstaklinga.
Karl Steinar segir lögregluna hafa mjög sterkan grun um að ungir einstaklingar hafi tekið á sig sök í þeim tilgangi að losna undan fíkniefnaskuld. Það sé afar alvarlegt mál og stundum reynist lögreglu erfitt að sanna hverjir beri raunverulega ábyrgð á framleiðslu.
Undanfarin misseri hefur fíkniefnadeild lögreglunnar unnið markvisst að því að stöðva kannabisræktun og aðra fíkniefnaframleiðslu. Karl Steinar segir mesta áherslu vera á að koma upp um framleiðslu og dreifingu á efnunum frekar en að leita uppi einstaka neytendur.