Haglél á Hvolsvelli og í Grímsnesi

Skýjaklakkur í Mývatnssveit fyrir nokkrum árum.
Skýjaklakkur í Mývatnssveit fyrir nokkrum árum. Veðurstofan

Á Hvolsvelli og í Grímsnesi voru haglél fyrr í dag. Eðlilega brá sumum við þetta, enda kominn 16. júní og vetrarveður ekki eitthvað sem fólk á von á. Hinsvegar eru mjög eðlilegar skýringar á þessu.

„Þetta eru skúraklakkar sem að valda hagléli og það er ekki þannig að það sé einhver snjókoma á leiðinni, heldur er þetta hitafyrirbrigði,“ sagði Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is aðspurð um málið.

„Þetta eru mjög öflugar skúrir. Þær ná hátt upp í andrúmsloftið og það er ansi kalt uppi. Úrkoman er því frosin og nær ekki að þiðna á leiðinni til jarðar,“ sagði Elín Björk.

„Í raun og veru er það uppstreymi sem veldur því að það er úrkoma í skýinu sem í venjulegum kringumstæðum myndi falla til jarðar og bráðna á leiðinni en af því að það er svo mikið uppstreymi fara droparnir í nokkra hringi, fara upp aftur og safna á sig meira vatni. Þetta er hringrás og þá fellur svona haglél,“ sagði Elín Björk.

Myndast í óstöðugu lofti

Á vef Veðurstofu Íslands má finna stutta grein eftir Trausta Jónsson þar sem þetta fyrirbrigði er skýrt nánar. Þar segir meðal annars: „Skúraský (éljaský) myndast í óstöðugu lofti, gjarnan að degi til á sumrin, þegar sól hitar yfirborð landsins. Loft er að jafnaði óstöðugt þegar kalt er í háloftunum.“

Meðfylgjandi mynd er frá Veðurstofunni. Í grein Trausta er sagt frá því hvernig skýið myndast: „Uppstreymið sem bjó til þetta myndarlega ský á myndinni hefur greinilega verið mikið því það hefur rekist upp undir veðrahvörfin og breiðst þar út til hliðanna í svokölluðum steðja (incus). Það er hann sem er mest áberandi á myndinni og er í þessu tilviki myndaður þegar uppstreymið lendir inni í hliðarvindi sem leitast við að skera ofan af því. Algengt er að vindhraða- og stefnubreytingar (vindsniði) séu miklar við veðrahvörfin. Steðjinn getur lifað lengur en upphaflegi klakkurinn, en breytist þá í netjuský - af klakkauppruna (altocumulus cumulogenitus).“

Í grein Trausta, sem finna má í heild sinni hér, segir að hér á landi myndist skúraútkoma ekki nema í ískristallaskýjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert