Tilkynnt var um ölvaða konu við Hagkaup í Skeifunni á fimmta tímanum í nótt. Konan hafði vakið athygli þar sem hún bar á höfði sér lögregluhúfu og var með kylfur meðferðis.
Lögregla kom á staðinn og handtók konuna. Hún reyndist hafa brotist inn í lögreglubifreið sem stóð við lögreglustöðina á Grensásvegi og stolið þaðan umræddum útbúnaði lögreglu.
Að sögð lögreglunnar var hún mjög ölvuð og óviðræðuhæf. Hún gistir því fangageymslur þar til hægt verður að taka af henni skýrslu.
Lögreglan stöðvaði ökumann við tónlistarhúsið Hörpu um miðnætti í nótt. Ökumaðurinn reyndist án ökuréttinda. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku.
Þá var ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna við Reykjanesbraut til móts við Bústaðaveg.
Að venju um helgi var töluvert af útköllum tengt hávaða og ölvun í nótt.