Umhverfisráðuneytinu er ekki kunnugt um rannsóknir sem styðja þá skoðun að ref hafi fjölgað mikið á landinu.
Er það svar ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins um hvort umhverfisráðherra eða ráðuneytið telji ástæðu til að bregðast við augljósri fjölgun á ref í landinu með einhverjum hætti. Ráðuneytið vísar málinu til sveitarfélaganna.
„Hins vegar vitna heimamenn um að refum hafi fjölgað á svæðunum sem um ræðir. Sé þetta rétt og þörf talin á að bregðast sérstaklega við fjölguninni kallar það á viðbrögð frá viðkomandi sveitarfélögum en ekki ráðuneytinu, þar sem refaveiðar eru á forræði þeirra,“ segir meðal annars í svari frá umhverfisráðuneytinu.
Eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu að undanförnu er vargur á borð við refi og minka farinn að valda tölverðum búsifjum í landinu, hvort sem það er í æðar- eða lundavarpi eða í sauðfjárrækt.
Samkvæmt upplýsingum frá Melrakkasetrinu er refastofninn í kringum ellefu þúsund dýr en fyrir tíu árum stóð stofninn í um 5 þúsund dýrum. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að allt bendi til þess að refum muni fjölga frekar.