Mikill fjöldi fólks er nú saman kominn á Akureyri vegna Bíladaga sem þar eru haldnir. Í gær var sagt frá því að óhapp hafi orðið í svokallaðri driftkeppni þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að tveir áhorfendur slösuðust.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri var um að ræða minni háttar meiðsl. Má því segja að betur hafi farið en áhorfðist í fyrstu.
Í samtali við mbl.is segir lögreglumaður á Akureyri að umferðin í og um bæinn hafi gengið með ágætum í dag og að engin sérstök atvik hafi átt sér stað. Segir hann flesta gesti Bíladaga hafa kosið að sofa út í morgun eftir skemmtanahald næturinnar.
Flestir fóru þó aftur á ról í þann mund sem spyrnukeppnin var að hefjast.
„En við búumst við fjöri í nótt,“ segir sami lögreglumaður og bendir á að Bíladagar, útskriftir og 17. júní skemmtanahald blandast nú allt saman í einn risastóran viðburð.