Vilja lenda makríldeilunni

Skipun Sigurgeirs Þorgeirssonar, ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, sem aðalsamningamanns Íslands í makríldeilunni er til marks um vilja íslenskra stjórnvalda til þess að ná niðurstöðu í málinu.

Þetta er haft eftir Benedikt Jónssyni, sendiherra Íslands í London, á fréttavefnum Fishnews.eu en þar segir að Benedikt hafi fundað 13. júní síðastliðinn með forystumönnum evrópskra útgerðarfyrirtækja sem stunda uppsjávarveiðar en fundurinn var skipulagður af honum ásamt þingmanninum Eilidh Whiteford sem situr á breska þinginu fyrir Skoska þjóðarflokkinn.

Fram kemur í fréttinni að fundarmenn hafi nýtt tækifærið til þess að ræða makríldeiluna á hreinskiptinn hátt og lýst skoðunum sínum á stöðu mála. Þeir hafi verið sammála um mikilvægi þess að fundin væri lausn á deilunni sem allra fyrst.

Þar segir að Benedikt hafi lagt áherslu á að íslenskum stjórnvöldum sé full alvara að ná samkomulagi um lausn makríldeilunnar og að Evrópusambandið ætti að líta á skipun Sigurgeirs sem aðalsamningamanns sem merki um vilja Íslands til þess að lenda málinu.

Þá segir ennfremur í frétt Fishnews.eu að fundarmenn hafi verið sammála um að fundurinn hafi verið gagnlegur og að hugsanlega yrði fundað aftur næsta haust á hliðstæðum nótum.

Eins og mbl.is greindi frá í vetur var ákveðið af stjórnvöldum að Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins, skyldi hætta sem aðalsamningamaður Íslands í makríldeilunni en sú ákvörðun mætti harðri gagnrýni meðal annars frá Jóni Bjarnasyni, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fullyrti Jón meðal annars að Tómas hefði verið látinn hætta að kröfu Evrópusambandsins vegna þess að hann hefði staðið of fast á kröfum Íslendinga en Jón lét af embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um síðustu áramót. Þessu hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar hafnað og lagt áherslu á að eftir sem áður stæði til að standa vörð um hagsmuni Íslands.

Þess má geta að komið hefur fram í máli forystumanna innan Evrópusambandsins að óleyst makríldeila gæti sett strik í reikninginn í viðræðum um sjávarútvegsmál vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið og sama hefur komið fram hjá íslenskum ráðherrum.

Frétt Fishnews.eu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka