Jörð var alhvít og þrumur og eldingar heyrðust og sáust í Svínahrauni, á Hellisheiði og víðar á Suðurlandi eftir miðnætti í nótt. Nú er snjór á Esjutoppum. Á þessum árstíma geta myndast skilyrði í háloftunum sem valda slíku veðri. Eldingar voru víða við suðurströnd landsins í nótt og margir hafa haft samband við Veðurstofuna í morgun og sagst hafa séð ljósblossa á himni.
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir um svokallaða skúraklakka að ræða sem geti valdið hagléli og annarri úrkomu sem og þrumum og eldingum. Loftið í háloftunum sé óstöðugt og kalt. „Það er ekki þannig að það sé einhver snjókoma á leiðinni, heldur er þetta hitafyrirbrigði,“ segir Elín Björk. „Þetta eru mjög öflugar skúrir. Þær ná hátt upp í andrúmsloftið og það er ansi kalt uppi. Úrkoman er því frosin og nær ekki að þiðna á leiðinni til jarðar.“ Um nokkurs konar hringrás sé að ræða vegna hitauppstreymis, dropar fara hring eftir hring og frjósa í ferlinu.
Toppar Esjunnar eru nú alhvítir, líklega eftir haglél í nótt, en þar sem það er kalt í háloftunum bráðnar snjórinn ekki strax.
Skilyrði sem þessi skapast helst á sumrin og er fyrirbrigðið því ekki mjög óalgengt. Hins vegar sjást eldingar oft ekki vegna skýjahulu.
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á bloggsíðu sinni að telja megi víst að hagl hafi borist marga kílómetra upp eftir skúraskýi áður en það féll til jarðar. „Mjög algengt er að sjá éljatauma niður úr skúraklökkum en að sumarlagi bráðnar ísinn yfirleitt áður en úrkoman nær til jarðar,“ skrifar Trausti.
Í grein Trausta á vef Veðurstofunnar er sagt frá því hvernig skýið myndast: „Uppstreymið sem bjó til þetta myndarlega ský á myndinni hefur greinilega verið mikið því það hefur rekist upp undir veðrahvörfin og breiðst þar út til hliðanna í svokölluðum steðja (incus). Það er hann sem er mest áberandi á myndinni og er í þessu tilviki myndaður þegar uppstreymið lendir inni í hliðarvindi sem leitast við að skera ofan af því. Algengt er að vindhraða- og stefnubreytingar (vindsniði) séu miklar við veðrahvörfin. Steðjinn getur lifað lengur en upphaflegi klakkurinn, en breytist þá í netjuský - af klakkauppruna (altocumulus cumulogenitus).“
Í grein Trausta, sem finna má í heild sinni hér, segir að hér á landi myndist skúraútkoma ekki nema í ískristallaskýjum.