Björgunarsveitir frá Borgarfirði, Akranesi og höfuðborgarsvæðinu ásamt þyrlu frá Landshelgisgæslunni voru kallaðar út rétt fyrir kl. 22 í kvöld til leitar að manni sem féll fyrir borð á gúmmíbáti í Borgarfirði.
Laust upp úr miðnætti fengust þær upplýsingar frá slysamóttökunni í Fossvogi að líðan mannsins væri eftir atvikum og að ekki yrðu frekari upplýsingar veittar að sinni þar sem hann væri í fyrstu ástandsskoðun eftir að hafa verið lagður inn.
Svo virðist sem bátnum, sem í voru maðurinn og dóttir hans, hafi hvolft rétt við Borgareyjar í Borgarfirði, að því er fram kom í tilkynningu frá Landsbjörg. Feðginin voru í skemmtisiglingu.
Konan og báturinn fundust fljótt en þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fann manninn kl. 23.09 og flaug með hann á Landspítalann í Fossvogi. Maðurinn var í flotgalla en hann var mjög kaldur þegar hann fannst.
TF-LÍF fór í loftið kl. 22:37 og fann hún manninn í sjónum kl. 23:09. Var flogið með hann beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem lent var um kl. 23:20.