Brotist var inn í minnst fjögur hesthús við hesthúsagötu á Hellu í nótt og ýmsu stolið. Hestamaður sem mbl.is ræddi við segir ljóst að þeir sem að verkinu stóðu kunni vel til verka og skilji verðminni hluti eftir. Tilkynnt var um innbrotin í morgun en lögreglan ætlaði að senda menn á vettvang nú eftir hádegið.
„Ég varð fyrir barðinu á þessu. Hurðin inn í hnakkageymsluna var spörkuð upp,“ segir Heiðdís Arna Ingvarsdóttir hestakona en þegar hún kom að hesthúsi sínu blasti við henni brotin hurð og verðmæt reiðtygi höfðu verið tekin ófrjálsri hendi.
Tóku það verðmætasta
Þjófarnir höfðu á brott með sér ýmis tól og tæki sem notuð eru til járninga, fjöldann allan af beislum og reiðhnakk. Hún segist vita dæmi þess að annar hestamaður, í sama hverfi, hafi orðið mun verr úti en hún. Í því innbroti hurfu fjölmargir reiðhnakkar.
„Þetta er mikið tjón. Maður er náttúrlega búinn að vera að safna þessu í gegnum tíðina,“ segir Heiðdís Arna og bendir á að tilfinningalegt tjón sé því einnig mjög mikið.
Hesthúsahverfið á Hellu er ein gata og standa hesthúsin sitt hvorum megin við hana. Brotist var inn í öll húsin öðrum megin götunnar en hin látin í friði.
„Það var bara brotist inn hægra megin, ætli þeir eigi ekki bara eftir að koma aftur og fara í hina röðina,“ segir Heiðdís Arna og vísar til hrinu innbrota í hesthúsahverfum að undanförnu.
Hún segir alveg ljóst að þeir sem stóðu að innbrotunum þekki mjög vel til þar sem einungis dýrasti útbúnaðurinn var tekinn. „Þetta eru einhverjir sem þekkja til því þeir pössuðu sig á því að hirða allar stangir, hálfstangir og betri mél.“ Annað var að sögn skilið eftir.
Þegar mbl.is ræddi við Heiðdísi Örnu í hádeginu höfðu lögreglumenn ekki enn mætt á vettvang til þess að kanna aðstæður.
„Lögreglan var svo upptekin í nótt að hún er ekki enn komin til mín. Hún kemur um hádegi,“ segir Heiðdís Arna.
Uggur í hestamönnum
Tíð innbrot hafa verið í hesthús að undanförnu og segir hún hestamenn hafa varann á sér. „Ég var búin að hafa varann á mér upp á síðkastið. Maður bjóst alveg við því að þetta færi að koma hingað.“
Hún segist vita dæmi þess að áður hafi verið brotist inn í hesthús í grenndinni en ekkert í líkingu við þau innbrot sem framin voru í nótt.