Þrífætti hundurinn Máni þekkir og sækir 40 hluti

Máni var mjög stoltur eftir sýninguna í dag.
Máni var mjög stoltur eftir sýninguna í dag. mbl.is/Ómar

Á Seltjarnarnesi býr merkilegur hundur. Hann heitir Máni og sker sig frá öðrum hundum að því leyti að hann er þrífættur. Það virðist þó ekki há honum neitt því hann hleypur um og leikur sér alveg eins og aðrir hundar. 

En það er fleira einstakt við Mána. Hann er nefnilega stórgáfaður og það er engu líkara en hann skilji mannamál því hann þekkir nöfnin á um 40 hlutum og sækir þá eftir óskum.

„Hann Máni er alveg sérstaklega gáfaður hundur, mannblendinn og ofsalega duglegur og það háir honum ekkert þótt hann sé aðeins með þrjár lappir,“ segir Ragna H. Jóhannesdóttir en hún á Mána ásamt eiginmanni sínum Kristni Gústafssyni.

Þau hjón hafa átt Mána síðan hann fæddist og nú er hann þriggja og hálfs árs. Ragna segir að Kristinn eigi mestan heiður af þjálfun Mána. Þjálfunin hafi þó aldrei verið neitt sérstakt markmið, meira komið af sjálfu sér en þau áttuðu sig snemma á hæfileikum Mána.

Sýningaratriði Mána vakti mikla lukku

Máni sýndi hæfileika sína á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi í dag. Sýningin var liður í hátíðardagskrá vegna 17. júní en hefð er fyrir að hundar taki þátt í hátíðarhöldunum þar í bæ. Sýningaratriðið var þannig að dótið hans Mána var falið á milli áhorfenda og hann svo beðinn um að sækja það í tiltekinni röð.

„Þetta var í fyrsta skiptið sem hann sýnir fyrir framan svona margt fólk. Hann var mjög stressaður í fyrstu enda margir áhorfendur og frekar mikill hávaði. En þegar hann fór að vinna hvarf allt stress og hann stóð sig með mikilli prýði,“ segir Ragna sem var að vonum stolt af hundinum. „Það er svo margt sem hann kann þessi hundur!“

Ragna segir Mána hlaupa um alveg eins og aðrir hundar og það hái honum ekkert að vera aðeins með þrjár lappir. Aðspurð hvort það hafi einhvern tímann komið til tals að hann fengi gervifót svarar Ragna því að þau hafi stundum haft áhyggjur af því hvað gerist þegar hann eldist og þyngist. Hins vegar virðist ekkert benda til þess nú að hann þurfi hjálp.

Máni er af tegundinni border collie en er einn fjórði íslenskur fjárhundur. Ragna segist ekki vita um fleiri þrífætta hunda á Íslandi sem hafi fæðst þannig, hins vegar séu einhverjir sem hafi misst fætur í slysum.

Hér sést Máni ásamt Rögnu og Kristni.
Hér sést Máni ásamt Rögnu og Kristni. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka