„Náð lengra en mig dreymdi um“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytur hátíðarræðu á Austurvelli.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytur hátíðarræðu á Austurvelli. mbl.is/Ómar

„Þegar litið er til aukins jöfnuðar höfum við satt að segja náð mun lengra en mig dreymdi um, þegar ég stóð hér fyrir þremur árum,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í hátíðarávarpi sínu á Austurvelli. Sagði hún ekkert mega stöðva að breytingar á fiskveiðistjórnuninni næðu fram að ganga.

„Bestu fréttirnar eru þó að allt bendir til þess að lífskjör alls almennings hér á landi haldi áfram að batna líkt og undanfarin tvö ár,“ sagði Jóhanna. „Á því tímabili hefur Íslendingum sem telja sig dafna fjölgað um helming og eru nú tæp 70% landsmanna, en þeim sem eiga í basli eða þrengingum hefur fækkað að sama skapi.“

Jóhanna sagði náttúru- og auðlindamál þjóðarinnar hafa verið tekin til gagngerrar endurskoðunar á liðnum árum. „Þá treysti ég því að Alþingi beri gæfu til að samþykkja á yfirstandandi þingi lög sem tryggja þjóðinni langþráðan og sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlindinni. Arður þjóðarinnar getur á næstu árum numið tugum milljarða króna, ef vel árar eins og undanfarin ár en á sama tíma yrðu góð rekstrarskilyrði vel rekinna fyrirtækja í sjávarútvegi tryggð. Ekkert má stöðva að þetta mál nái fram að ganga.“

Jóhanna fór yfir þann árangur sem hún segir ríkisstjórnina hafa náð og nefndi m.a. að böndum hefði verið komið á hallarekstur ríkissjóðs og að skuldastaða þjóðarbúsins batnaði jafnt og þétt.

„Erlend neyðarlán ríkisins eru greidd upp hraðar en áætlað var og ríkissjóður hefur með afgerandi hætti rutt brautina fyrir innlend fyrirtæki og stofnanir á erlendum lánsfjármarkaði. Þegar hefur verið gengið frá nokkrum samningum um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnuuppbyggingu hér á landi og fleiri eru í undirbúningi.“

Einangrun landsins hafi verið rofin og traustið að verulegu leyti endurheimt.

Hatrömmustu átök stjórnmálanna

Jóhanna talaði einnig um þá reiði sem væri í samfélaginu og þau hatrömmu átök sem ættu sér stað á vettvangi stjórnmálanna. Sagði hún átökin hatrammari en hún hefði áður upplifað á sínum 34 ára ferli sem þingmaður og ráðherra. Afleiðingin væri m.a. gríðarlegt vantraust á mörgum mikilvægustu stoðum samfélagsins.

„Eðlilega geta skiptast á skin og skúrir í þessum efnum, ekki síst þegar taka þarf erfiðar og óvinsælar ákvarðanir, en viðvarandi óeining og vantraust á helstu stofnunum samfélagsins eins og við höfum upplifað allt frá hruni, er mikið áhyggjuefni,“ sagði Jóhanna. „Ábyrgðina berum við, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og enn sem komið er hefur okkur að miklu leyti mistekist í þessu mikilvæga verkefni, að endurvinna traust þjóðarinnar. Þetta þykir mér mjög miður. Úr þessu verðum við að bæta á næstu misserum ef ekki á illa að fara.“

Jóhanna talaði einnig um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni og tillögur stjórnlagaráðs. „Nú hillir loks undir að draumsýn Jóns Sigurðssonar, þjóðfundarmanna og margra Íslendinga allt frá upphafi sjálfstæðisbaráttunnar, um nýja, alíslenska stjórnarskrá, geti orðið að veruleika,“ sagði Jóhanna.

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert