Nýju þingmennirnir ókurteisari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Eggert Jóhannesson

Sú staðreynd að eftir kosningarnar 2009 komu margir nýir þingmenn inn á þing sem þekktu lítt til kurteisisvenja á þingi kann að skýra hvers vegna þingmenn hafi verið grófari í orðfæri og sært vinnufélagana meira en dæmi eru um, að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknar.

Talsverð umræða hefur farið fram um það að undanförnu að lítil reisn sé yfir Alþingi og er þá gjarnan vísað til þess litla trausts sem þingið mælist með í könnunum. Þá er því haldið fram að andrúmsloftið á þingi sé slæmt og loftið lævi blandið við Austurvöll.

Sigmundur Davíð telur síðastnefnda atriðið orðum ýkt.

„Andrúmsloftið er ábyggilega ekki jafn slæmt og margir halda. Þingmenn ólíkra flokka, stjórnar og stjórnarandstöðu, geta sest saman yfir kaffibolla, spjallað og velt vöngum yfir stöðunni. Menn eru svo sem ágætir félagar þótt þeir takist á í ræðustól.

Sá er hins vegar munurinn frá því sem áður var að í síðustu kosningum komu inn mjög margir nýir þingmenn sem höfðu e.t.v. ekki tamið sér sömu kurteisisviðmið og þingmenn hafa gert í gegnum tíðina. Það held ég að hafi átt þátt í að menn hafi verið grófari og sært vinnufélagana meira heldur en áður hafi tíðkast. Á heildina litið er andrúmsloftið í þinghúsinu alveg þolanlegt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert