Mótorsport er skemmtilegt en hættulegt (myndskeið)

„Slys eru bara slys en þetta varð samt til þess að við endurskoðuðum okkar öryggismál fyrir keppnina sem fram fór í gær og munum fara enn  betur yfir málin,“ segir Björgvin Ólafsson, einn aðstandenda Bíladaga, um atvik sem átti sér stað á föstudag er ökumaður missti stjórn á keppnisbíl og ók inn í áhorfendahópinn á mikilli ferð, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Á föstudag sagði mbl.is frá því að óhapp hefði orðið í svokallaðri drift-keppni þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að tveir áhorfendur slösuðust. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var um að ræða minniháttar meiðsl en báðir mennirnir voru fluttir á sjúkrahús í kjölfar atviksins.

Um 18.000 manns sóttu Bíladaga um helgina. Björgvin segir akstursbrautina, þar sem óhappið varð, hafa uppfyllt öll sett öryggisskilyrði.

„En við þurfum greinilega bara að ganga enn einu skrefi lengra og gera þetta enn betur. Þetta er þörf áminning fyrir keppnishaldara, áhorfendur og keppendur að þó mótorsport sé skemmtilegt þá er það hættulegt og menn verða alltaf að hafa það í huga,“ segir Björgvin. 

Þá segir hann koma til greina að setja upp betri öryggisgirðingar, steypta kanta eða vatnsfyllt ker á næsta ári til þess að tryggja enn frekar öryggi keppenda og áhorfenda.

Björgvin segir að slys séu mjög fátíð á Bíladögum.

Góð stemning og mæting framar vonum

Almennt séð segir hann Bíladaga hafa gengið mjög vel fyrir sig í ár, mæting framar björtustu vonum og mikil stemning ríkt á svæðinu alla helgina.

Meðfylgjandi myndband náðist af slysinu síðastliðinn föstudag. Á því má glöggt sjá þegar svartri bifreið er ekið á mikilli ferð beint inn í hóp áhorfenda. Skömmu síðar koma öryggis- og björgunarmenn hlaupandi á slysstaðinn.

Athugið að hægt er að sjá myndbandið stærra á skjánum með því að smella á örina neðst til hægri í sjónvarpsglugganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert