„Þær tala um það á hverjum degi að þær eigi heima á Íslandi, tala um fjölskylduna sína þar og dótið sem bíður þeirra heima í húsinu okkar. Við höfum alltaf sagt við þær að við förum öll heim saman í stóru flugvélinni og eru þær mjög spenntar fyrir því og tala mjög oft um það.“
Þetta er haft eftir íslenskum hjónum á facebooksíðu sem stofnuð hefur verið til styrktar þeim en þau fóru til Kólumbíu í desember síðastliðnum til þess að sækja dætur sínar tvær sem þau höfðu ættleitt en hafa ekki getað snúið aftur til Íslands síðan.
Hjónin Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson höfðu beðið í fimm ár eftir að geta látið þann draum rætast að geta ættleitt frá Kólumbíu í gegnum Íslenska ættleiðingu. Þau fengu síðan loks tilkynningu um að það í nóvember að röðin væri komin að þeim.
Bjarnhildur og Friðrik gerðu ráð fyrir að vera um sex vikur í landinu og koma síðan heim með dætur sínar en hafa þess í stað þurft að fara í gegnum kólumbískt dómskerfi til þess að fá heimild til að yfirgefa landið með þær. Þau bíða nú eftir því að fá niðurstöðu í málið sem gæti tekið margar vikur enn.
„Hver hefði trúað því að við gætum virkilega lent í svona martröð,“ er haft eftir þeim Bjarnhildi og Friðriki á síðunni. „Við getum ekki ímyndað okkur lífið án dætra okkar en það sem okkur finnst ennþá hræðilegri tilhugsun er að stelpurnar okkar fái ekki að halda áfram að eiga stóra fjölskyldu sem elskar þær og að þær verði bara tvær aleinar í heiminum.“
Ítarlega reynslusögu þeirra hjóna má lesa hér.