„Þingmenn sátu inni í matsal og horfðu á Evrópukeppnina í fótbolta og Desperate Housewives. Formennirnir voru að reyna að funda og ekkert gekk. Sumir mættu ekki einu sinni á fundina,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um ástandið á Alþingi á fimmtudaginn var.
Þór lýsir fimmtudeginum og föstudeginum á þingi svo en þingfundum var þá sem kunnugt er ítrekað frestað til að reyna að koma á samkomulagi um þinglok.
„Á föstudaginn var þingfundi frestað klukkan hálf tvö síðdegis og svo með hálftíma og klukkutíma hléum fram eftir öllum degi, alveg til tíu, hálf ellefu um kvöldið. Það var enginn þingfundur allan daginn. Þó eru 60 mál sem bíða afgreiðslu.
Sama staða var uppi á fimmtudaginn. Þá var byrjað að fresta þingfundi fljótlega upp úr hádegi og honum var frestað með hálftíma og klukkutíma hléum fram til ellefu um kvöldið. Það var ekkert mál afgreitt. Þingmenn sátu inni í matsal og horfðu á Evrópukeppnina í fótbolta og Desperate Houswives. Formennirnir voru að reyna að funda og ekkert gekk. Sumir mættu ekki einu sinni á fundina.“
Spurður hversu margir þingmenn hafi horft á boltann og Aðþrengdar eiginkonur sagði Þór það hafa verið „breytilegt“ hversu margir voru í salnum.