Mun koma niður á heimilunum

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ómar Óskarsson

„Ef við erum að tala um að það verði ekki neinar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu á þessu kjörtímabili er það auðvitað mjög mikill sigur,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann er beðinn að gefa álit sitt á samkomulaginu um þinglok. Hann segir veiðigjöldin munu koma niður á hag heimilanna.

Guðlaugur Þór leggur áherslu á að hann tjái sig um málið með þeim fyrirvara að samkomulagið standi.

Hann telur stjórnarandstöðuna hafa unnið sigur með því að fá sérstaka veiðigjaldið helmingað niður í þá upphæð sem nú er rætt um.

„Hvað varðar veiðigjaldið hugsa ég að það sé ekki hægt að halda öðru fram en að það sé ákveðinn árangur hjá stjórnarandstöðunni að hafa tekið það úr 27 milljörðum niður í 12-13 milljarða.

Það er engu að síður mjög mikil hækkun frá þeim 5 milljörðum sem það er í dag. Og er enn eitt dæmi um skattafíkn þessarar ríkisstjórnarinnar. Við erum í minnihluta en með mjög öflugu starfi höfum við komið í veg fyrir stærra slys. Þetta mun samt sem áður hafa mjög alvarleg áhrif fyrir heimilin í landinu.“

- Hvað finnst þér samkomulagið segja um stöðu ríkisstjórnarinnar?

„Það er erfitt að segja að hún hafi veikst því hún var svo veik fyrir. Þetta er enn ein staðfestingin á því að við erum ekki með starfhæfa ríkisstjórn. Það að koma fram með málin svona vanbúin er fullkomlega óábyrgt. Stjórnarflokkarnir ætla sér að samþykkja veiðigjaldafrumvarpið upp á von og óvon því þeir vita í raun ekki hvaða afleiðingar það mun hafa frekar en aðrir. Það er með öllu óábyrgt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert