„Svigrúm til fjárfestingar verður ekkert. Það blasir við,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, um áhrif veiðigjaldanna eins og þau líta út núna í samkomulaginu um þinglok. Ætlunin er að leggja 12.700-13.800 milljóna króna skatt á útgerðina.
- Í hvernig ástandi verður útgerðin í árslok 2013 ef veiðigjaldið verður við lýði á næsta fiskveiðiári?
„Skipin hafa ekki verið endurnýjuð. Þau verða tveimur árum eldri, allur flotinn. Þeir verða ekki margir sem fjárfesta í búnaði til að auka verðmætasköpun og þar með auka tekjur þjóðarbúsins. Við erum að fara inn í neikvæðan spíral þar sem afleiðingin verður minnkandi tekjur útgerðarinnar og þjóðarinnar af auðlindinni - afleiðingin af því að skipastóllinn eldist, fjárfestingar minnka og við drögumst aftur úr sem fiskveiðiþjóð,“ segir Sigurgeir.