Veiðigjöld verða 12-13 milljarðar

Samkomulag hefur tekist um lok þingstarfa. Það felur í sér að frumvarp um veiðigjöld verður afgreitt. Veiðigjald er afmarkað til eins árs og verður að hámarki frá 12,7-13,8 milljarðar króna.

Í upphaflegu frumvarpi sem sjávarútvegsráðherra lagði fram á þingi í vetur var gert ráð fyrir að veiðigjöld skiluðu 19,5 milljörðum að meðaltali á ári. Atvinnuveganefnd þingsins lagði fram breytingartillögur sem leiddu til þess að gjöldin áttu að skila 15 milljörðum að meðaltali á ári. Útgerðin greiðir í dag um 4,5 milljarða króna í veiðigjald.

Framsóknarflokkurinn sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir að með þessu samkomulagi sé komið í veg fyrir skaðlegustu áhrif frumvarpa ríkisstjórnarinnar.

„Framsókn styður hækkun veiðigjalds en hefur lagt áherslu á að sú hækkun yrði innan skynsamlegra marka, á þeim grunni að atvinnu þúsunda einstaklinga í sjávarútvegi og tengdum greinum yrði ekki ógnað. Einnig hefur Framsókn lagt mikla áherslu á að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu séu unnar í sem víðtækastri sátt.

Hluti samkomulagsins sem náðist í dag er skrifleg yfirlýsing frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Þar er fallið frá þeim hugmyndum stjórnarflokkanna sem Framsókn hefur talið skaðlegastar og gagnrýni í umsögnum sérfræðinga beindist helst gegn. 

Slík skrifleg yfirlýsing er mjög mikilvæg í ljósi fyrri reynslu af loforðum forystumanna ríkisstjórnarflokkanna.

Samkvæmt yfirlýsingunni er frumvarpi um stjórn fiskveiða frestað til næsta þings. Fulltrúar allra þingflokka munu halda áfram samráðsvinnu og verði nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun lagt fram mun það byggjast á vinnu þess hóps. Öllum áformum um fyrningu aflaheimilda hefur því endanlega verið hafnað, enda hefði slíkt kostað þúsundir starfa.

Veiðigjald er afmarkað til eins árs, það verður að hámarki frá 12,7-13,8 milljarðar króna. Gjaldið verður lagt á til eins árs en í millitíðinni mun sérfræðihópur endurmeta gjaldið. Ef forsendur gjaldsins reynast rangar verður það endurskoðað strax á fyrsta ári. Það sama á við ef verðþróun á mörkuðum eða aflabrestur gefa tilefni til endurskoðunar,“ segir í yfirlýsingu frá Framsóknarflokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert