„Forseti lítur svo á að dagurinn í dag sé aukadagur til þess að reyna að ljúka hér þingstörfum, en við munum auðvitað meta dagskrána í framhaldinu.“ Þetta sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, í upphafi þingfundar. Ekkert samkomulag hefur enn tekist um að ljúka þingstörfum, en þingmenn reyna enn að ná samkomulagi.
Þingfundur hófst kl. 10:30, en áður en dagskrá hófst hófu þingmenn að ræða um fundarstjórn forseta, en sú umræða snerist aðallega um það hvers vegna ekki hefði tekist samkomulag um að ljúka þingstörfum.
„Alþingi Íslendinga er ekki lengur starfshæft sem löggafarvald,“ sagði Þór Saari við umræðuna. Hann sagði að það væri valdaþrátefli og við slíkar aðstæður væri rétt að höggva á hnútinn með því að boða til alþingiskosninga hið fyrsta.