Yfirlýsing frá Sjálfstæðisflokknum

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

„Atlögu ríkisstjórnarinnar að fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur verið hrundið,“ segir í yfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins um ákvæði um sjávarútvegsfrumvörpin í samkomulaginu um þinglok. Bent er á að veiðigjaldið hafi verið helmingað frá upphaflegri áætlun.

Orðrétt hljóðar yfirlýsingin svo:

„Atlögu ríkisstjórnarinnar að fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur verið hrundið. Frumvarp það sem fól í sér miklar breytingar á kerfinu hefur verið lagt til hliðar og ekki mun koma til grundvallarbreytinga á lögum um stjórn fiskveiða á þessu kjörtímabili.

Ríkisstjórnin hefur, að kröfu stjórnarandstöðunnar, fallið frá hugmyndum um bann við framsali og uppstokkun aflahlutdeildarkerfisins eins og að hafði verið stefnt, auk annarra áforma sem fram komu í fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu sem lagt var fram í vor.

Þetta frumvarp er annað tveggja frumvarpa ríkisstjórnarinnar er snerti sjávarútveginn, en hitt varðar veiðigjöld eins og kunnugt er.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í umræðu um þessi mál staðið vörð um þá sameiginlegu hagsmuni þjóðarinnar, að hér á landi séu stundaðar hagkvæmar og arðsamar veiðar með lágmarks ríkisafskiptum og sanngjarnri skattlagningu.

Upphafleg áætlun ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir um 25 milljarða veiðileyfagjaldi á útgerð og fiskvinnslu. Við meðferð málsins á Alþingi hefur komið fram harkaleg gagnrýni frá stjórnarandstöðunni og fjölmörgum sérfræðingum. Sú barátta varð til þess að stjórnarflokkarnir hafa nú ákveðið að lækka upphæðina í 12-13 milljarða. Samt sem áður er ljóst að um er að ræða ofurskatt á sjávarútveginn sem Sjálfstæðisflokkurinn hafnar alfarið.

Öll aðferðafræði stjórnarflokkanna við útreikning auðlindarentunnar er reist á sandi. Það er viðurkennt með því, að sérstakri nefnd verður falið að kanna forsendur gjaldsins, eftir að því verður komið á.

Ríkisstjórnin hefur látið hjá líða að kanna til þrautar upplýsingar um alvarleg áhrif skattsins á fjárfestingar og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum landsins. Fullri ábyrgð vegna þessa er lýst á ríkisstjórnina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert