„Konur voru ekki taldar nægilega þroskaðar til að kjósa, þær hefðu ekki sömu lífsreynslu og karlar því þær voru flestar inni á heimilunum. Nokkur ótti kom líka fram í umræðum á Alþingi um að konur færu að láta til sín taka í stjórnmálum og svo virðist sem sumum hafði þótt það býsna ógnvekjandi tilhugsun,“ segir Auður Styrkársdóttir sagnfræðingur og forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, en í dag eru 97 liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.
Dagurinn í dag, 19. júní, er helgaður kvenréttindum hér á landi, en Kristján X. undirritaði nýja stjórnarskrá landsins þennan dag árið 1915. Þar var m.a. kveðið á um að allar íslenskar konur, 40 ára og eldri, hefðu kosningarétt og kjörgengi.
„Þetta aldurstakmark er einsdæmi. Reyndar var miðað við 30 ára aldur þegar breskar konur fengu kosningarétt árið 1918, en það var fljótlega fellt niður,“ segir Auður.
„Menn töldu að það þyrfti að fara varlega í svona breytingar og að ekki mætti fara of geyst af stað.“
Söfnuðu fyrir Landspítala
Auður segir að Kvenréttindafélag Íslands hafi verið stofnað árið 1907 til þess að vinna að því að konur fengju kosningarétt. Nokkuð ljóst þótti að fullt jafnrétti myndi ekki nást með þessari einu löggjöf.
„En konur tóku þátt í stjórnmálum fyrir þennan dag árið 1915, kvennalisti var boðinn fram í Reykjavík 1908 og þá fóru fjórar konur í bæjarstjórn og líka var boðinn fram kvennalisti 1910 og 1912. Svo má ekki gleyma því að konur höfðu lengi unnið að ýmsum samfélagslegum málefnum og það er líka pólitík. Slík mál standa fólki oft nær og það krefst mikils af fólki að leggja sitt fram til samfélagsins. En konur ákváðu að reisa kosningarétti sínum minnisvarða og það er Landspítali Íslands. Þær töldu að réttindum fylgdu skyldur, skyldur við þjóðina. Þær fóru út í peningasöfnun, árið 1926 afhentu þær Landspítalasjóð sem reyndist vera helmingurinn af kostnaði við byggingu spítalans.“
Tekur tíma að venjast réttindum
En voru íslenskar konur duglegar við að nýta sér kosningaréttinn í upphafi? „Nei, þær voru ekki að nýta hann sem skyldi,“ segir Auður. „Íslenskar konur kusu fyrst í landskjörskosningum árið 1916 og þá voru um 10% þeirra kvenna sem höfðu kosningarétt sem nýttu sér hann. Reyndar var kjörsókn mjög dræm þetta árið, sem bendir til þess að þetta hafi ekki verið sérlega spennandi kosningar. En það verður að hafa í huga að það tekur fólk tíma að venjast réttindum.“
Kosningarétti kvenna er fagnað á ýmsan hátt í dag. Kvenréttindafélag Íslands heldur upp á daginn með hátíðadagskrá á Hallveigarstöðum, gengin er Kvennasöguganga á Akureyri, auk ýmissa stærri og smærri viðburða. Hið árlega Kvennahlaup er einnig hlaupið til þess að minnast 19. júní 1915.
Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Jafnréttisstofu.