„Þingsköpin eru varnargirðing þingræðisins – þau eru leikreglurnar sem okkur ber að fara eftir og beita. Það hefur ekki verið gert að undanförnu. Þess í stað hefur verið samið í bakherbergjum.“ Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í pistli á vefsvæði sínu.
Eins og greint var frá á mbl.is sagði Ólína við upphaf þingfundar í dag, að hún teldi sig óbundna af samkomulagi sem þingflokkarnir gerðu um þinglok.
Ólína segir í pistli sínum að stjórnmálaflokkar geti í stjórnarmyndunarviðræðum dregið úr ýtrustu kröfum og samið um útfærslur þegar gerður er nýr stjórnarsáttmáli tveggja flokka „en þingmenn hafa ekki umboð til þess að fara í þveröfuga átt eða semja um „málamiðlanir“ til skaða fyrir stefnumál eigin flokks eða þvert gegn stjórnarsáttmála.“
Hún segist áfram munu berjast fyrir heilbrigðum og farsælum breytingum á fiskveiðistjórnun okkar „en þá baráttu vilj ég heyja með opnum og heiðarlegum aðferðum, á grundvelli lýðræðislegrar umræðu og eðlilegra vinnubragða.“