Samkomulag hefur tekist milli þingflokkanna um að gera minniháttar breytingar á þingsköpum. Þær fela m.a. í sér að svokallaður „septemberstubbur“ verður lagður af. Þingið hefst annan þriðjudag í september.
Septemberstubburinn var hugsaður sem tveggja vikna þing þar sem þingið afgreiddi mál sem ekki tókst að klára á vorþingi. Upphafleg hugsun var sú að hægt væri að vinna betur umdeild mál yfir sumarið og ljúka afgreiðslu þeirra um haustið áður en reglulegt þing hæfist. Reynslan af þessu þinghaldi hefur hins vegar ekki verið góð. Deilur sem voru á vorþingi hafa haldið áfram á septemberstubbnum og því hefur það sjaldan skilað miklum árangri.
Þingskapanefnd hefur í vetur farið yfir þingskapalögin. Nefndin náði ekki að ljúka vinnu sinni, en ákveðið var að láta nægja að gera ýmsar lagfæringar á þingsköpum Alþingis sem eru flestar tæknilegar.
Næsta haust ráðgerir þingskapanefnd að leggja fram annað frumvarp sem tekur á öðrum þeim þáttum sem nefndin hefur fjallað um í vetur varðandi breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Þar verður m.a. horft til þess að taka á skipulagi þingstarfanna með ýmsum hætti, t.d. með því að fjalla um reglur um ræðutíma. Þá verður þar einnig fjallað frekar um skiptingu málaflokka á milli fastanefnda og starfshætti nefnda en þá verður heilt löggjafarþing liðið frá því að veigamiklar breytingar voru gerðar á nefndaskipaninni og starfsháttum fastanefnda.