Suðurstrandarvegur verður formlega opnaður á fimmtudag er Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra klippa á borða rétt austan við vegamótin við Krýsuvíkurveg.
Undirbúningur að lagningu Suðurstrandarvegar hófst hjá Vegagerðinni á árinu 1996, þegar vegamálastjóri skipaði hönnunarhóp sem skyldi hafa umsjón með hönnun vegarins.
Vegurinn er 57 km langur frá Grindavík í vestri að Þorlákshöfn í austri. Liggur hann um þrjú sveitarfélög en þau eru Grindavík, Hafnarfjarðarbær og sveitarfélagið Ölfus.
Áætlaður heildarkostnaður vegna verksins er rétt tæpir 3 milljarðar kr. uppreiknað til verðlags í dag.